Illugi Jökulsson rithöfundur segir fráfarandi forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, hafa látið sinn eigin persónulega metnað og vináttu sína við Bjarna Benediktsson skyggja á pólitískan sóma sinn. Illugi víkur að framboði Katrínar í grein sem hann skrifar á Heimildinni.
Þegar Illugi heyrði fyrst af mögulegu framboði Katrínar leyst honum ágætlega á það og sagði það öllum sem heyra vildu. Ekki því Katrín eigi verðlaun skilið fyrir að hafa haldið Sjálfstæðisflokki við völd undanfarin sjö ár, eða fyrir frammistöðu ríkisstjórnar hennar í velferðarmálum sem hafi verið hreint út sagt ömurleg. Nei Illugi studdi framboðið því þar með yrði ríkisstjórnin úr sögunni. Sjálfstæðisflokkur gæti ekki fellt sig við forsætisráðherra sem væri ekki einkavinkona formanns þeirra, Bjarna Benediktssonar, og krefjast þess að Bjarni tæki við aðrir flokkar meirihlutans myndu aldrei sætta sig við. En annað virðist komið á daginn.
„En þótt kok Katrínar og VG hafi reynst vera afar vítt og sleipt síðustu sjö árin, þá væru samt til takmörk. Og þann stóra skít gætu þau ekki með nokkru móti gleypt. Eftir allt sem á undan er gengið og Bjarni hefur „afrekað“. Því hlyti stjórnin að víkja og þó fyrr hefið verið. Og mér fannst alveg tilvinnandi að kannski kostaði það að Katrín yrði forseti.“
Það skipti í raun litlu hver sitji á Bessastöðum. Sá sé í raun bara í viðhafnastöðu og láti helst á sér bera þegar kemur að því að úthluta fálkaorðu. Meira máli skipti að losna við ríkisstjórnina.
„En getur og gangandi ættu aldrei að taka minnsta mark á mér framar. Því viti menn! Nú er Katrín komin í framboð til forseta en þvert oní það sem ég trúði staðfastlega, þá ætla hún og VG að kyngja því að spilltasti stjórnmálamaður seinni tíma verði forsætisráðherra – sigri hrósandi. Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði. Enda veit ég greinilega ekkert í þann haus.“
Illugi telur ljóst að persónulegur metnaður Katrínar hafi yfirskyggt allan pólitískan sóma hennar, sem og vinátta hennar við Bjarna.
„Ekki er að undra þótt Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn séu umsvifalaust búnir að skipta sér innst í búr stuðningsmanna Katrínar Jakobsdóttir. Segðu mér hverjir eru vinir þínir og ég skal segja þér hver þú ert… orðin.“