Pawel Bartoszek varaborgarfulltrúi Viðreisnar í Reykjavík hefur ekki snert áfengi í þrjátíu daga. Hann greindi frá því í færslu á Facebook og fór yfir hvaða ótrúlegu áhrif það hefur haft á líf hans.
„Dagur 30 í áfengispásu. Kominn með tvær aukavinnur, hef mætt í ræktina 5 daga vikunnar, festi upp ljós um alla íbúð, endurraðaði hillum í stofunni, litaflokkaði bækurnar og tók til í geymslunni. Hef stórbætt tímann í að leysa rúbikskubb og er langt kominn með gagnvirkt námskeið í skammtaforritun, sem ég dunda mér í á kvöldin, í öllum lausa tímanum,“ sagði Pawel og bætti við:
„Sólarhringurinn er of langur. Hvað gerir þetta edrú fólk við alla lausa tímann? Treysti því að fá frétt á Mannlíf/Lífið/Eirík/Smartland með fyrirsögninni: „Pawel sleppti því að drekka áfengi í mánuð – þetta gerðist!““