Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er ekki að bjóða sig fram til embættis forseta. Gott er að hafa það á hreinu áður en gerð er grein fyrir færslu hans í kvöld sem hefst einmitt á setningunni:
„Kæru vinir
Ég hef tekið ákvörðun um að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands“
Ragnar segir landsmenn orðna vana yfirlýsingum sem þessum. Mikil áhugi sé á embættinu og virðist áhuginn fara fyrir brjóstið á flestum sem Ragnar hefur rætt við undanfarið. Fólk haldi að fjöldi frambjóðenda sýni að tilefni sé til að herða reglur um framboð.
„Þessu er ég algjörlega ósammála“
Íslendingar búi við þau forréttindi að nánast hver sem er geti boðið sig fram til embættis forseta. Skilyrðin eru ekki þröng. Þó svo að lokum muni sá frambjóðandi fá framgang sem best tengsl hefur við peninga og valdaöfl, en það breyti því ekki að meðaljón og meðalgunna geta og hafa boðið sig fram.
„Hvernig væri nú staðan ef við hefðum einungis tvo kolruglaða karla á níræðisaldri úr að velja, sem hafa eytt starfsævinni í að gæta sérhagsmuna?,“ spyr Ragnar og vísar þá til Bandaríkjanna þar sem fyrrum forseti Donald Trump og Joe Biden eru að bítast um embættið.
Hér sé frelsið meira og það sé grundvöllur lýðræðis, réttur sem megi með engu móti skerða.
„Ég horfi á þetta sem lýðræðisveislu sem við eigum öll að fagna. Ég hef meiri áhyggjur af því að of margir hellist úr lestinni frekar en hitt. Að heyra ekki sjónarmið og skoðanir þeirra sem eru nær raunveruleika venjulegs fólks en ekki hluti af einhverri elítu.“
Ragnar sem sagt pirrar sig ekki á fjölda frambjóðenda, en hann pirrar sig þó á þeim breytingum sem eiga til að verða á frambjóðendum um leið og þeir hafa lokið við að lýsa yfir framboði.
„Þeim sem nú þegar er hampað sem líklegum til árangurs eru farnir að tala öðruvísi og klæða sig með öðrum hæti. Þetta hef ég oft verið var við í gegnum tíðina þegar forsetaefni stíga fram. Þetta fer einhvern veginn alltaf í taugarnar á mér. Af hverju getur fólk ekki bara verið venjulegt eins og við hin í stað þes að ávarpa okkur, tala til okkar með yfirlætislegum og háfleygum hætti.
Segja má að gríðarlegur fjöldi framboða til forseta sé mælikvarði á sjálfhverfu okkar eða hvernig við höfum breyst sem þjóð á kostnað samstöðunnar og náungakærleiks.“
Frambjóðendur þurfi að sýna landsmönnum meira en yfirlýsingar um eigið ágæti.