„Einn af þremur bílum hjá okkur varð fyrir því óláni að velta á leiðinni til Ísafjarðar og það þurfti að senda einn af okkar mönnum suður með sjúkrabíl,“ segir Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra, við Fótbolta.net.
Sergine Fall var sá sem var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík með sjúkrabíl og fór fyrirliðinn Elmar Atli Garðarsson með honum.
„Aðstæður voru ekki góðar, það hafði skafið inn á veginn og þegar þeir keyrðu í einn skaflinn misstu þeir stjórn á bílnum og hann valt. Þeir voru ekki á miklum hraða þegar þetta gerðist en hinir tveir bílarnir komu að þeim þegar þeir höfðu lent í bílveltunni. Menn voru í nettu sjokki,“ segir Samúel við Fótbolta.net.
„Menn höfðu haldið að þetta væri eitthvað innvortis en ég fékk skýrslu frá fyrirliðanum um 04:30 í nótt þess efnis að þetta væri ekki eins slæmt og óttast hafði verið og hann væri í mesta lagi rifbeinsbrotinn.“
Vestri átti flug heim eftir leikinn gegn Fram í gær en því var aflýst. Því var ákveðið að keyra af stað en Samúel segir slíkt eitthvað sem mögulega þurfi að endurskoða eftir óhappið í gær.