Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, önnur af ritstjórum Heimildarinnar, hefur margsinnis greint frá því að hafa orðið fyrir svívirðingum og hótunum, ekki síst vegna af hálfu karlmanna meðal annars vegna skrifa hennar um til dæmis jafnréttismál og ofbeldi gegn konum. Í nýlegri Facebook-færslu greinir hún frá nýlegu dæmi um netníð sem hún varð fyrir af hálfu Árna Stefáns Árnasonar lögfræðings en Árni komst í fréttirnar nýlega vegna deilna við konu sem leigir af honum óíbúðarhæft hús í Hafnarfirði en Árni sagði konuna hafa sótt það fast að fá að leigja húsnæðið.
Með færslu Ingibjargar fylgir skjáskot af athugasemd Árna sem Ingibjörg segir að hafi verið skrifuð við leiðara en athugasemdin er eftirfarandi:
„Þú ert besta mynd druslu í blaðamannastétt sem finna má Ingibjörg.“
Ingibjörg tekur ekki fram við hvaða leiðara athugasemdin var skrifuð en nýjasti leiðari Heimildarinnar, sem ritaður er af henni, birtist 5.apríl og ber yfirskriftina „Að lofsama ofbeldismenn“ þar sem meðal annars er deilt á Heru Björk Þórhallsdóttur keppanda Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Athugasemd Árna er ekki að finna undir leiðaranum á vefsíðu Heimildarinnar og heldur ekki undir færslu á Facebook-síðu miðilsins þar sem leiðaranum er deilt. Sé þetta leiðarinn sem Árni skrifaði athugasemdina við virðist hún því hafa verið fjarlægð.
Ljóst er að Ingibjörg er ekki að upplifa slíkt níð í sinn garð í fyrsta sinn. Hún skrifar:
„Karlar sem kalla konur druslur. Klassík. Allan minn feril herf ég mætt þessum körlum. Nú er til dæmis stutt síðan ókunnugur maður skrifaði athugasemd við gamla fb-færslu frá mér um að það ætti að … mér í … Að því virtist vegna bókaskrifa um baráttukonu gegn kynjamisrétti. Þessi birtist við leiðara og þótt mér þyki þessir menn of mikil grey til að svona athugasemdir fái á mig, þá finnst mér afhjúpandi hvað það er enn stutt í drusluskömmun og kvenfyrirlitningu.“