Eins og flestir vita gekk Gylfi í raðir Vals fyrir tímabilið og skoraði hann í fyrsta leik sínum í Bestu deildinni í sigri á ÍA í gær.
„Allir í kringum Gylfa segja að hann hafi verið til í að spila frítt fyrir FH. Vandamálið var að FH hafði engan áhuga á að semja við Gylfa. Þeir sögðu honum að hann mætti mæta á æfingar og annað slíkt,“ sagði Hjörvar Hafliðason í Dr. Football fyrir helgi.
FH-ingar hafa hins vegar ekki sömu sögu að segja að sögn Hjörvars.
„Ég heyrði í nokkrum FH-ingum og spurði þá út í þetta. Þeir sögðu að þeir hafi haft samband við Gylfa en þeim hafi ekki fundist að hann hefði áhuga. Mönnum ber ekki saman um hvernig þetta var.
Upplifun hans og hans teymis er sú að FH hafi ekki haft áhuga. FH segir að það sé ekki rétt. Það er sérstakt hvernig menn sjá þetta mismunandi,“ sagði Hjörvar enn fremur, en Gylfi er sem fyrr segir alinn upp hjá FH. Hann fór svo yfir til Breiðabliks áður en hann hélt út í atvinnumennsku 16 ára gamall.
Gylfi skrifaði undir tveggja ára samning við Val. Hann er einn fremsti knattspyrnumaður Íslandssögunnar, er markahæsti landsliðsmaðurinn frá upphafi og með yfir 300 leiki í ensku úrvalsdeildinni.