Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United, hefur útskýrt af hverju hann hætti við að gerast þjálfari en það var hans draumur eftir að ferlinum lauk.
Ferdinand hefur gert það gott á internetinu eftir að ferlinum lauk og er með vinsæla YouTube rás og starfar einnig í sjónvarpi.
Ferdinand ætlaði alltaf að leita í þjálfun eftir að skórnir fóru á hilluna áður en eiginkona hans, Rebecca, lést eftir baráttu við krabbamein aðeins 34 ára gömul.
Ferdinand áttaði sig fljótt á því að hann þyrfti að vera til taks fyrir börnin sín þrjú og setti drauminn til hliðar eftir andlát eiginkonunnar.
,,Ég var að vinna mér inn réttindin, ég vildi gerast þjálfari, hundrað prósent,“ sagði Ferdinand í samtali við hlaðvarpsþáttinn Overlap.
,,Augljóslega þá geta hlutir átt sér stað heima fyrir og ef þú ætlar að gerast þjálfari þá þarftu að vera til staðar allan sólahringinn, þú færð ekkert frí.“
,,Krakkarnir þurftu á mér að halda, hundrað prósent. Ég er í vinnunni en það er hægt að ná í mig, ég get enn verið til taks og get enn látið sjá mig, ef ég væri þjálfari þá myndi ég missa af öllu.“
,,Ég þurfti að taka ákvörðun mjög fljótt, þetta var ekki eitthvað sem ég þurfti að íhuga, ég ákvað bara að þetta væri ekki rétt skref.“