Þorkell Máni Pétursson var gestur í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin á fimmtudag en hann ræddi þar við Ríkharð Óskar Guðnason og Kristján Óla Sigurðsson.
Máni eins og hann er yfirleitt kallaður ræddi leiðinlegt en samt sem áður skondið atvik sem átti sér stað á sínum tíma er hann starfaði hjá Keflavík.
Það getur verið erfitt fyrir íslensk félög að hefja Íslandsmótið á þessu ágæta landi en veðurfarið er oft virkilega vont bæði áður en mótið hefst og næstu tvo mánuði eða svo.
Máni hefur lent í erfiðleikum á sínum þjálfaraferli en leikmenn Keflavíkur voru þá á leið til Akureyrar og þurftu að snúa við á miðri leið vegna veðurs.
,,Ég get sagt ykkur eina sorgarsögu á sínum tíma, þá var ég nýbúinn að halda risatónleika og var kominn heim til mín klukkan fimm um nóttina og það var lagt af stað klukkan átta norður á Akureyri,“ sagði Máni.
,,Kristján Guðmundsson hringdi í KSÍ og sagði: ‘Heyrðu, þetta er ekki veðurfært, það verður ekkert spilað í þessu veðri, þetta er ruglað veður.’ – ‘Jújú það verður spilað, það verður spilað.’
,,Það var keyrt alla leiðina og það var skítaveður alla leiðina, við komum á Blönduós og þar er ákveðið að taka súpu og brauð og klára svo ferðina. Þá hringir síminn hjá Kristjáni og hann snýr sér við og segir: ‘Það er búið að fresta leiknum.’ – við þurftum að keyra til baka.“