Þeir Egill Helgason fjölmiðlamaður og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Niceair, áttu í hvössum og líflegum orðaskiptum á Facebook-síðu Egils í gær. Samstöðin greindi frá.
Egill gerir að umtalsefni fréttir af athafnamanninum Sverri Einari Eiríksson. Sverrir rekur meðal annars skemmtistaðina B5 og Exit auk Nýju Vínbúðarinnar, sem er netverslun með áfengi. Sverrir á skrautlegan feril að baki en hefur nýlega lent í vandræðum með rekstrarleyfi fyrir Brim Hótel við Skipholt. Egill birtir frétt RÚV um lokun staðarins og varpar fram hugleiðingu um hugtakið „athafnamaður“.
„Hér á árum áður var orðið athafnamaður notað um menn sem sannarlega höfðu afrekað eitthvað, byggt upp, oft voru það menn sem voru meginstoðir í atvinnulífi heilla plássa. Athafnamenn voru settir á stall og um þá skrifaðar bækur. Aðalsteinn Jónsson á Eskifirði var til dæmis kallaður athafnamaður og Einar Guðfinnsson í Bolungarvík – jú, og Pálmi Jónsson í Hagkaupum. Nú er eins og merkingin hafi breyst og orðið athafnamaður sé notað um menn sem setja fyrirtæki á hausinn en rísa upp aftur, dansandi á mörkum þess sem er löglegt og siðlegt. Er jafnvel háðulegt að vera kallaður athafnamaður?“
Þorvaldur tekur upp hanskann fyrir Sverri Einar, sem hann segist þó ekki þekkja til. Sakar hann Egil um illkvittni:
„Nokkurs konar Jantelov, Jörvagleði, illmælgi og illkvittni í sömu tilfinningu. Ef menn meika það eru þeir glæpónar og gróðapungar, ef illa gengur eru þeir lúserar eða tukthúsmatur.“
Hann segir síðan: „Er ekki bara best að vera ríkisstarfsmaður á jötunni, Egill Helgason?“
Egill svarar: „Er það að vera á jötu að starfa hjá ríkinu? Hvaða vitleysa er þetta?“
Þorvaldur Lúðvík skrifar þá: „Tjah, jatan sú virðist ótæmandi. Þekki ekkert til þessa manns, en sem Íslendingum virðist okkur tamara að dæma og gagnrýna fremur en hrósa og samgleðjast.“
Segir Egill þá: „Hvað er að þér? Hvers konar fásinna er þetta? Ríki og sveitarfélög standa í margvíslegri þjónustu við borgara þessa lands og að því kemur ólíkt fólk með alls konar bakgrunn og menntun. Og fæst á háum launum.“
Þorvaldur segist þá ekki vera að verja Sverri en segist vilja „vara við því að hlaða í kesti.“ Síðan segir hann:
„Vitanlega eru opinberir starfsmenn nauðsynlegir og dugmiklir margir, en óvissa um mánaðarmót eða heimilisbókhaldið er í flestum tilvikum ekki sú sama og hja þeim sem leggja hitt á sig (með misjöfnum árangri auðvitað ). Hence, hin ótæmandi jata.“
Þessu svarar Egill:
„Það er enginn að hlaða í köst, ég var einfaldlega að velta fyrir mér orðinu „athafnamaður“ og hvernig merking þess hefur breyst frá því að vera hrósyrði notað um menn sem þóttu traustir og stóðu með sínu fólki yfir í það að vera nánast eins og háð. Notað um lukkuriddara.“