Söngkonan Britney Spears gekk að eiga unnusta sinn til margra ára þann 9. júní 2022. Hjónabandið var þó ekki skammlíft, en 14 mánuðum síðar höfðu þau slitið samvistum. Söngkonan hefur mikið notað miðilinn Instagram til að birta hugleiðingar og myndbönd og ritskoðar sig lítið enda frelsinu fegin eftir að áratugalangri sjálfræðissviptingu hennar lauk. Britney glímir við geðhvarfasýki sem faðir hennar notaði sem afsökun til að taka yfir öll hennar mál, þó svo að flestir sem við sjúkdóminn glíma geti séð um mál sín sjálfir.
Í vikunni birti Britney myndband af sér að dansa við fyrrum eiginmanninn, ekki er ljóst hvenær myndbandið var tekið. Hún eyddi færslunni þó fljótlega en þar hafði hún skrifað texta þar sem hún opnaði sig um hjónabandið og sagði það ekki hafa verið dans á rósum.
„Þegar hann lyfti mér upp. Það er stundum erfitt að líta yfir farinn veg en það skiptir þó máli að gera það. Ég er líklega of viðkvæm í flestum aðstæðum,“ skrifaði söngkonan. Myndbandið sýndi fyrrum hjónin dansa og ljúka sporunum með kossi svo líkur má leiða að því að það hafi verið tekið upp á meðan allt lék í lyndi. Britney segir að ástarsambönd séu flókin og flestir í slíkum samböndum upplifi hæðir og lægðir.
„Ég tala stundum um fortíðina mína því ég vil passa mig að endurtaka ekki sömu mistökin,“ hélt hún áfram og sagðist vera að læra að loka sig ekki af á erfiðum tímum. Hún segist gjarnan vera viðkvæmt blóm en tilfinningar hennar séu flóknar. Þetta fylgi fullorðinsaldri en auðveldara var að klóra sig í gegnum tilfinningarnar þegar hún var yngri. „Mér finnst eins og ég hafi átt auðveldara með að treysta fólki og ég hafði þá ekki upplifað hvað heimurinn getur verið grimmur. Ég saknað þess að geta berskjaldað mig og verið opin við aðra. Ef þú þekkir mig, þá veistu hvernig ég elska. Ég elska alltof heitt, og það er neyðarlegt en ég mun elska þig til lífstíðar. Það er persónueiginleiki sem ég vil halda en það er ekki alltaf dans á rósum. Ég vona að með því að deila þessu er að með því að rifja þessa hluti upp þá get ég reynt að skilja hvers vegna mér fannst ég aldrei nógu góð.“
Fyrir viku viðurkenndi söngkonan að henni langi til að láta allt flakka á samfélagsmiðlum sínum en hún hiki við það. Það er skiljanlegt í ljósi þess að andleg veikindi hennar eru á almannavitorði sem veldur því að fylgjendur hennar eru stöðugt að leita vísbendinga í öllum færslum hennar um stöðu andlegrar heilsu hennar. Minnst tvisvar hafa velmeinandi aðdáendur söngkonunnar kallað lögreglu að heimili hennar af ótta við að söngkonan þurfi aðstoð. Britney biðlaði í bæði skiptin til fylgjenda sinna að virða friðhelgi heimilis hennar. Hún hafi gengið í gegnum helvíti og til baka, henni hafi ekki verið treyst til að taka jafnvel léttvægar ákvarðanir um eigið líf. Nú sé mál að linni og fólk þurfi að treysta því að Britney sé hæf til að stýra eigið lífi. Vissulega fari hún óhefðbundnar leiðir, en það sé hennar réttur að vera öðruvísi. Ekki allir geti verið steyptir í sama mótið og heimurinn hafi ekki fengið að kynnast hennar raunverulegri persónu fyrr en nú. Hún sé vissulega þekkt söngkona en hún sé líka furðufugl, hispurslaus og skammarlaust hún sjálf.