Grínistinn og fyrrverandi borgarstjórinn Jón Gnarr tilkynnti um forsetaframboð sitt á þriðjudaginn og safnaði meðmælum á innan við tveimur klukkustundum. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona steig fram með formlegum hætti í gær og bauð sig fram til forseta. Guðmundur Felix Grétarsson hefur einnig ákveðið að gefa kost á sér. Þetta eru aðeins þeir sem hafa bæst í hóp frambjóðenda í vikunni.
„Ég er ennþá á því, það sem ég hef sé [hingað til], besta hugmyndin (e. concept) að mínu mati er Baldur og Felix. Besta hugmyndin, hands down. Hann er stjórnmálafræðingur, hann er virðulegur, hann kemur vel fyrir, hann er gáfaður, hann er greindur og svo er makinn hans ekki að skemma fyrir. [Felix] er skemmtilegur, alþýðulegur, indæll. Mér finnst þessi pörun geggjuð. Besta hugmyndin til þessa,“ segir Simmi Vill.
Þeir ræða næst um Jón Gnarr. Hugi vísar í ávarp grínistans sem var heldur alvarlegri en landsmenn eru vanir að sjá hann. „Er hann ekki bara að sækja um þægilega innivinnu og heldur að hann hafi baklandið í það?“ spyr Hugi.
„Má ég bara benda á eitt?“ segir Simmi og heldur áfram:
„Af því að fólk vill tala um Jón Gnarr sem borgarstjóra, að þetta hafi verið ótrúlega skemmtilegt flipp. Má ég aðeins segja þér pínu baklandshörmungar sem gerast í svona umhverfi. Reykjarvíkurborg er með mjög marga Bubbakónga í mismunandi stöðum innan borgarkerfisins. Menn sem eru búnir að vera þarna í mörg ár og stjórna sínu sviði. Jón Gnarr kom þarna inn og sagði: „Ég er ekki að fara að kenna ykkur neitt, þið eruð að fara að kenna mér.“ Það sem hann gerði, hann styrkti þetta Bubbakóngakerfi. Hann styrkti það verulega, því allt í einu kom borgarstjóri sem var þarna bara svolítið og já, rosa alþýðulegur og næs og var góður út á við og gerði fullt af skemmtilegum hlutum og var mjög fín andlitslyfting inn í borgarstjórnina. En Bubbakerfið, sjálft kerfið, embættismannakerfið, það efldist, völd embættismannanna urðu miklu meiri í þessu umhverfi, sem er erfitt að vinda ofan af.“
Þeir ræða þetta nánar í þættinum, sirka á mínútu 22:00.