Conor Gallagher, leikmaður Chelsea, var ásakaður um kynþáttafordóma nýlega er liðið mætti Burnley í ensku úrvalsdeildinni.
Gallagher tók ekki í hendina á ungum strák sem er dökkur á hörund í leikmannagöngunum áður en leikmenn gengu inn á völlinn.
Gallagher klappaði stráknum á bakið og gerði sig tilbúinn fyrir viðureignina og hafa margir sett stórt spurningamerki við af hverju hann sé ásakaður um rasisma.
Fyrsti svarti leikmaður í sögu Chelsea, Paul Canoville, var á meðal þeirra sem gagnrýndi Gallagher en hefur nú beðist afsökunar á ummælum sínum.
,,Ég vil biðja Conor og alla stráka sem og stelpur Chelsea afsökunar. Ég var alltof fljótur á mér,“ skrifar Canoville.
,,Eins og þið vitið þá er ég mjög ástríðufullur þegar kemur að jafnrétti. Ég sendi ykkur öllum mína ást.“
Gallagher hefur fengið töluvert skítkast á samskiptamiðlum eftir atvikið en flestir virðast sammála um það að um alls engan rasisma hafi verið að ræða.