Nú mega því margir Rússar búast við að verða kallaðir í herinn og nokkuð ljóst er að þeir munu ekki allir snúa aftur heim lifandi.
Breskar leyniþjónustustofnanir telja að um 30.000 Rússar gangi til liðs við herinn í hverjum mánuði. Nú koma 150.000 til viðbótar og frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu hefur Pútín tvisvar gripið til herkvaðningar og kvatt 300.000 menn til herþjónustu.
Jacob Kaarsbo, sérfræðingur hjá dönsku hugveitunni Tænketanken Europa, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að nýja herkvaðningin snúist um að manna núverandi herdeildir. „Hersveitir víða í Rússlandi eru mjög undirmannaðar. Herkvaðningin snýst um að fylla í „holurnar“ því svo margir falla í stríðinu. Þær eru í raun gríðarlega undirmannaðar,“ sagði hann.
Hann sagði að hvorki Pútín né yfirmenn rússneska hersins séu svo barnalegir að trúa því að stríðinu ljúki fljótlega. Möguleiki þeirra á að sigra felist í því að halda áfram stríði eins og stendur yfir núna, þar sem reynir á úthald stríðsaðilanna. Þeir missi gríðarlega marga hermenn með þessari taktík en trompið sem þeir hafa á hendi sé að þeir geti fengið nýja menn í staðinn.