Bubbi Morthens telur ljóst hver eigi að verða næsti forseti Íslands, þó svo að viðkomandi sé sem stendur ekki búin að staðfesta framboð.
„Katrín Jakobsdóttir, sem næsti forseti Íslands,“ skrifar tónlistarmaðurinn á Facebook og segist frábiðja sér „drullu og almenn leiðindi“ enda sé öllum frjálst að vera ósammála og á sama tíma sé Bubba frjálst að stýra því hver tekur þátt í umræðum á hans vettvang.
Katrín Jakobsdóttir er ekki formlega komin í framboð en líkurnar þykja þó meiri en minni. Líklegt er talið að forsætisráðherra sé nú að gefa kollegum sínum í ríkisstjórninni tíma til að ákveða hvernig tekist verði á við framboð hennar og hver taki við hlutverki hennar innan stjórnarráðsins.
Þann 26. mars var lénið katrinjakobs.is skráð og er almennt talið að skráningin gefi framboð til kynna. Katrín hefur sjálf gengist við því að vera alvarlega að íhuga framboð, en ljóst er að staða hennar sem forsætisráðherra krefst þess að hún taki tillit til flokksfélaga sem og til annarra flokka meirihlutans.
Meint framboð þykir sérstakt fyrir sömu sakir, þ.e. að forsætisráðherra sé að bjóða sem fram til embættis forseta. Katrín hefur þó mælst vel í könnunum nú í ár og ekki er þetta í fyrsta sinn sem hún er orðuð við framboð.
Bubbi var svo sem ekki að opinbera neitt óvænt með færslu sinni í kvöld enda skrifaði hann fyrir þremur dögum að Katrín yrði fullkominn forseti og bæri höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur. Bubbi treysti Katrínu til að gegna embættinu með sóma.