Tveimur leikjum er lokið það sem af er kvöldi í ensku úrvalsdeildinni.
Í Norður-Lundúnum tók Arsenal á móti Luton. Heimamenn komust yfir á 24. mínútu með marki Martin Ödegaard.
Skytturnar tvöfölduðu forskot sitt svo þegar Daiki Hashioka setti boltann í eigið net.
Ekkert var skorað í seinni hálfleik og fremur þægilegur 2-0 sigur Arsenal staðreynd. Liðið er komið á toppinn, tímabundið hið minnsta en Liverpool tekur á móti Sheffield United á morgun.
Luton er í átjánda sæti, þremur stigum frá öruggu sæti.
Í hinum leik kvöldsins tók Brentford á móti Brighton en hvorugu liðinu tókst að koma knettinum í netið.
Brighton er í níunda sæti með 43 stig en Brentford er í því fimmtánda með 28 stig.