Guðmundur Felix Grétarsson býður sig fram til embættis forseta Íslands. Tilkynnti hann framboð sitt með myndbandi á samfélagsmiðlum.
„Nú eru nýir tímar og nýjar áskoranir og ég hef tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér til embættis forseta Íslands. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til kjörs á forseta Íslands. Í meðfylgjandi myndbandi fer ég yfir hvað leiddi mig að þessari niðurstöðu og hvað ég stend fyrir.
Mitt fyrsta verk verður að flakka um landið og safna þeim undirskriftum sem til þarf.“
Framboðsræða Guðmundar í heild sinni:
Kæru Íslendingar. Ég, Guðmundur Felix Grétarsson, hef ákveðið að gefa kost á mér til kjörs í embætti Forseta Íslands
Ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum fyrir þann ómetanlega stuðning sem þið hafið veitt mér á minni vegferð.
Ég stend í dag á tímamótum, þar sem ég hef lokið 3 ára endurhæfingu eftir tvöfalda handaágræðslu, sem aldrei hefði verið möguleg, nema fyrir einstakan stuðning og samstöðu Íslensku þjóðarinnar.
Fyrir u.þ.b 20 árum stóð ég á krossgötum í mínu lífi. Ég gat haldið áfram á þeirri stefnu sem ég var og mætt óumflýjanlegum örlögum mínum eða breytt henni með því að horfast heiðarlega í augu við sjálfan mig og spyrja hver ég vildi vera og hvert ég vildi stefna.
Það varð mér fljótlega ljóst að ef ég vildi eiga gott og innihaldsríkt líf þurfti ég að láta af sumum þeirra hugmynda sem ég hafði og tileinka mér aðrar.
Sjálfsvorkunn yfir slæmri stöðu minni var kannski til þess fallin að afla mér samúðar en hún gerði ekkert til að koma mér á betri stað. Hvernig mér leið var vísbending um hvað mætti betur fara en ekki áttaviti til að byggja lífið á.
Gott og innihaldsríkt líf er ekki laust við sorgir og sársauka. Líf sem hafði þann eina tilgang að líða aðeins betur var dæmt til glötunar. En með því að nálgast lífið út frá því hvað ég gæti lagt að mörkum í stað þess hvað ég gæti fengið út úr því, reyndist lykillinn að hamingjunni.
Það var ljóst að heimurinn og fólkið í honum var ekki að fara að aðlagast mínum óskum. Ég þurfti að byggja upp karakter út frá því sem ég taldi gott og rétt. Að vera góð manneskja er persónueinkenni, ekki dyggðarskraut.
Með þessi gildi að leiðarljósi hóf ég þarna vegferð sem leiddi til þess að ég varð fyrsti einstaklingurinn í heiminum til að fá ágrædda tvo heila handleggi frá öxlum.
Ferlið var langt, strangt og fullt af mótlæti. Til að ná slíku markmiði þarf maður fyrst að vita hvað maður vill, hver maður sjálfur er og láta ekki fortölur, vonleysi eða neikvæðni annarra beygja sig af braut. Axla ábyrgð á öllum sínum gjörðum og ákvörðunum. Finna sér heimili í óvissunni, gera sér grein fyrir því að maður hefur iðulega rangt fyrir sér og vera tilbúinn að hlusta. Læra af