Jótlandspósturinn hefur eftir talsmanni lögreglunnar að maðurinn hafi hringt upp úr klukkan 4 í nótt til að tilkynna um innbrotið. „Hann lá í rúminu sínu á efri hæðinni og heyrði þegar rúða var brotin í stofunni. Síðan heyrði hann að það var einhver inni í húsinu,“ sagði talsmaðurinn.
Lögreglan leiðbeindi manninum um hvað hann skyldi gera og lá hann kyrr í rúminu og ræddi við lögregluna í síma á meðan innbrotsþjófurinn athafnaði sig á neðri hæðinni. Á meðan brunuðu lögreglumenn að húsinu.
Innbrotsþjófurinn áttaði sig greinilega ekki á að húsráðandinn var búinn að hringja í lögregluna og hélt því verki sínu áfram. Hann var á leið upp stigann upp á efri hæðina þegar lögreglumenn brutu útidyrnar upp og sendu hund inn til að fanga þjófinn. „Hann var ekki ánægður með það,“ sagði talsmaðurinn um viðbrögð innbrotsþjófsins við því að lögregluhundur hafi skyndilega birst.
Innbrotsþjófurinn er 33 ára og góðkunningi lögreglunnar því hann hefur áður verið handtekinn vegna innbrota. Hann verður færður fyrir dómara í dag þar sem lögreglan mun krefjast gæsluvarðhalds yfir honum.