Í fyrstu tilkynningu Tékka kom fram að þeim hefði tekist að útvega 800.000 fallbyssukúlur og að kaupin væru að fullu fjármögnuð með stuðningi ýmissa ríkja. Ekki leið á löngu þar til þeir tilkynntu um kaup á 700.000 kúlum til viðbótar.
Ætlunin er að það verði aldrei gert opinbert hvernig Tékkum tókst að útvega allar þessar fallbyssukúlur en það er samt sem áður hægt að giska á hvar þeir fengu þær.
Jótlandspósturinn ræddi við Esben Salling Larsen, hernaðarsérfræðing, um þetta og sagðist hann hafa ákveðnar hugmyndir um hvar Tékkar fengu skotfærin.
Hann sagði að kúlurnar geti skipt miklu máli og bæti við getu úkraínska hersins. Úkraínumenn segist sjálfir skjóta um 2.000 fallbyssukúlum á dag núna en vilji helst skjóta tvöfalt fleiri. Markmiðið sé að geta viðhaldið stöðugri og mikilli skothríð í langan tíma og til þess að það sé hægt þurfi að fá nýjar birgðir reglulega.
Hann benti á að Tékkarnir hafi útvegað skotfæri fyrir vestrænar fallbyssur og gamlar sovéskar sem Úkraínumenn ráði yfir.
Larsen sagði að lykilinn að kaupunum sé að finna í fortíð Úkraínu innan Sovétríkjanna og fortíð Tékklands, sem var þá hluti af Tékkóslóvakíu, á áhrifasvæði Sovétríkjanna.
Wall Street Journal segir að samkvæmt upplýsingum frá tékkneskum stjórnvöldum þá hafi landið haldið fast í vopnaiðnaðinn sem var byggður upp á tíma Sovétríkjanna auk þess sem þau hafi viðhaldið góðum tengslum við önnur ríki í heiminum sem hafi verið í svipaðri stöðu.
„Trúnaður er lykilatriðið í þessu máli. Við tölum og munum tala við alla, óháð því hver staða þeirra er eða pólitískt viðhorf, þó með ákveðnum undantekningum á borð við Norður-Kóreu,“ sagði Thomas Pojar, þjóðaröryggisráðgjafi tékknesku ríkisstjórnarinnar í samtali við Wall Street Journal.
Jan Jires, varavarnarmálaráðherra, veitti örlítið meiri upplýsingar og sagði að sum af ríkjunum sem seldu Tékkum fallbyssukúlurnar séu eiginlega bandalagsríki Rússlands en séu reiðubúin til viðskipta við Tékka sem millilið gegn því að þeir tryggi að Rússar fái ekki vitneskju um viðskiptin.
Larsen sagðist hafa ákveðnar hugmyndir um hvaða ríki geti átt í hlut, þetta séu þó aðeins hugmyndir hans sjálfs. Pakistan sé eitt þessara ríkja því það framleiði skotfæri eins og Úkraínumenn nota. Indland komi einnig til greina sem og Egyptaland en bæði þessi ríki eigi mikið magn skotfæra.