fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Frystihúsabarnið Þorgrímur hefur áhyggjur af bómullarbörnunum og þakkar sínu sæla fyrir að hafa fallið í MR

Fókus
Þriðjudaginn 2. apríl 2024 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókaskrif hafa aldrei verið hans aðalstarf en hann hefur engu að síður skrifað 44 bækur á kvöldin og um helgar og gefið þær allar út. Tvisvar hefur hann fengið íslensku barnabókaverðlaunin en segist samt enn eiga eftir að skrifa bestu verkin sín. Rithöfundurinn, fyrrum knattspyrnumaðurinn og blaðamaðurinn Þorgrímur Þráinsson er viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins. Þorgrímur er einnig afar vinsæll fyrirlesari og hefur meðal annars haldið fjölda fyrirlestra fyrir ungmenni og foreldra um hvernig við getum byggt upp innri seiglu til að takast á við lífið og hvetur unga fólkið okkar til að fylgja hjartanu inn í framtíðina. Í þættinum fara þeir Mummi í gegnum sögu Þorgríms og draga meðal annars fram hvaðan drifkrafturinn hans og seigla er tilkomin.

Maður er þetta gamall

Þorgrímur segir að í æsku hafi hjartað hans slegið í sveitinni hjá ömmu hans og afa, séra Þorgrími V. Sigurðssyni og Áslaugu Guðmundsdóttur, á Staðastað á Snæfellsnesi. Þar dvaldi hann á sumrin og hjálpaði við búskapinn, en á veturna voru það krakkarnir á vistinni sem tóku verkin að sér.

Þorgrímur rifjar upp að hann sé nú það gamall að á Staðastað þessa tíma sá svokölluð ljósavél um lýsinguna og á kvöldin þegar krakkarnir voru komnir í rúmið var slökkt á vélinni og þar með dofnuðu ljósin og suðið úr vélinni hvarf. Þögnin og myrkrið tók við þar til að morgni.

„Maður er þetta gamall,“ segir Þorgrímur glottandi en bætir við að hann hafi lengi búið að því að hafa sveitina sína, enda Snæfellsnesið sögusvið í mörgum hans bókum.

„Þannig að það er svo gott – og ég segi þetta oft við rithöfunda sem eru að byrja – að skrifa um eitthvað sem þú þekkir vel. Þá líður þér vel. Þekkir umhverfið. Ekki reyna að skálda of mikið. Nýttu bara þína reynslu í sögunni.“

Þó Þorgrímur starfi í dag sem fyrirlesari segist hann hafa verið feiminn og óframfærinn fram eftir aldri. Honum hafi að auki aldrei liðið þægilega í margmenni. Eftir að hann gaf út sína fyrstu bók skömmu eftir þrítugt fór hann í skóla til að lesa upp úr bókinni fyrir krakkana.

„Ég átti bara í erfiðleikum með það. Ég átti erfitt með að standa fyrir framan krakka þó þeir væru 11-12 ára og segja frá bók sem ég hafði skrifað og var að lesa upp. Svo fór ég löngu seinna á Dale Carnegie námskeið sem hjálpaði mér. En í minningunni – þegar ég var í MR þá var ég ekkert að reyna við stelpur eða bjóða þeim út, ég var ekkert í félagslífinu. Ég var bara íþróttagaur.“

Í sveitinni gafst þó enginn tími fyrir feimni. Þar voru verkin látin tala og ekkert rými til að halda sér til baka.

Heppinn að falla

Það er gjarnan sagt að fall sé fararheill en það sannaði sig þegar Þorgrímur lenti í því að falla fyrsta árið sitt í Menntaskólanum í Reykjavík og að þurfa að endurtaka árið.

„Í MR þá tengist ég kannski einhverjum 2-4 vinum og við erum bestu vinir í dag. Ég var svo heppinn að falla í MR. Ég var svo heppinn að falla í þriðja bekk í MR og ég segi þetta við krakka í framhaldsskóla í dag, því nú er verið að sparka þeim á þremur árum í gegnum framhaldsskóla þegar þau þurfa kannski 4-6 ár.“

Nemendur á fyrsta ári í MR eru sem sagt í þriðja bekk, fyrir þá sem ekki þekkja til. Þorgrímur lenti í því að falla á einu prófi að vori. Honum gafst kostur á að taka upptökupróf og var svo öruggur um að ná því að í stað þess að læra fór hann í bíó, á rúntinn og á fótboltaæfingu.

„Ég hugsaði þetta er svo auðvelt, ég rúlla þessu upp. Ég tók prófið og féll. Það fyndna er – eftir að hafa skrifað 44 bækur – er að ég féll í íslensku. En það að mæta svo aftur næsta haust og fara með yngri nemendum í MR og horfa á mína vini fara upp í fjórða bekk – það var erfitt. Þá þurfti ég að kyngja stoltinu.“

Þorgrímur svelgdist þó ekki á stoltinu enda reyndist þetta gæfuspor. Hann eignaðist vini til lífstíðar sem annars hefðu farið framhjá honum og nú hefur hann góða sögu til að deila með ungmennum í dag, sem mögulega eru sjálf að finna sig í sömu sporum.

Gamli skólinn og bómullarbörnin

Þessa daganna verði mörgum tíðrætt um að gamli skólinn hafi verið betri, þegar krakkar voru látnir bera meiri ábyrgð og meiri kröfur gerðar til þeirra. Eldri kynslóðir landsins hafi þurft að hafa meira fyrir lífinu.

Þorgrímur nefnir sem dæmi æsku sína í Ólafsvík. Þá kom fiskur í land og allir virkjaðir til að bjarga þessum dýrmætu verðmætum hafsins.

„Þá var skólanum lokað í heila viku og við þurftum að vinna í frystihúsinu kannski frá 8 á morgnanna til 22 á kvöldin. 12 ára gamlir krakkar, í blautum hönskum, salt í augunum, drulluþreytt, skipti engu máli. Við vorum bara að bjarga verðmætum. Í dag væri þetta barnaþrælkun og það yrði allt brjálað í samfélaginu.“

Það sé í raun miður að unga kynslóðin í dag fari á mis við þetta. Þetta séu krakkar í mótun og þegar hafa þurfi fyrir hlutunum kenni það krökkunum að það sé lykillinn að öllum árangri – að leggja á sig vinnuna og að takast á við mótlæti. Staðan sé önnur í dag.

„Við erum að skutla þeim á æfingu þótt þau geti labbað. Við erum að sækja þau á æfingu því það er smá rigning. Við erum að smyrja fyrir þau nesti, við erum að búa um rúmið þeirra, við erum að þvo fötin þeirra. Við erum að taka þroskann af þeim – eins og ég hef stundum notað – við erum pínu þroskaþjófar. Krakkar geta miklu meira en við höldum þau geta. Og við teljum okkur trú um það, eins og ég kannski gerði sjálfur sem þriggja barna faðir,  að við séum að gera þeim einhvern greiða“

Fullorðna fólkið muni hversu mikið þau þurftu að leggja á sig og hvað þau létu bjóða sér. Foreldraástin leiði svo til þess að við viljum hlífa börnunum frá sömu upplifun. Þess í stað eru þau vafin inn í bómull sem geti komið þeim í koll síðar meir þegar þau lenda í mótlæti og geta ekki tekist á við það.

Sem betur fer telur Þorgrímur að vitundarvakning sé að eiga sér stað með þessa hluti. En þessi vitundarvakning og meðfylgjandi breytingar taki tíma. Hann telur að gott skref væri að láta af öllum áformum um skólastyttingu og lengja aftur framhaldsskólann því fyrstu árgangar framhaldsskólanema sem hafi farið í gegnum námið á þremur árum séu að lenda á vegg í háskóla.

Framheili unga fólksins sé í mótum þar til um 25 ára aldur og ótækt að leggja það á þau að taka ákvörðun um framtíð sína þegar þau eru rétt buin að slíta barnaskónum. Eins megi alvara lífsins aðeins bíða og ungmennin fá að njóta tímans áður en ábyrgð fullorðinsáranna klippir vængi þeirra.

Hlusta má á viðtalið við Þorgrím og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mömmuáhrifavaldur sætir rannsókn eftir fjölda ábendinga um vanrækslu – Myndbandið sem gerði útslagið

Mömmuáhrifavaldur sætir rannsókn eftir fjölda ábendinga um vanrækslu – Myndbandið sem gerði útslagið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jay-Z neitar að hafa nauðgað 13 ára barni – „Ég mun ekki gefa þér krónu með gati“

Jay-Z neitar að hafa nauðgað 13 ára barni – „Ég mun ekki gefa þér krónu með gati“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fitness áhrifavaldur tók æfingu í miðju flugi – „Hún ber enga virðingu fyrir öðrum“

Fitness áhrifavaldur tók æfingu í miðju flugi – „Hún ber enga virðingu fyrir öðrum“