fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Pressan

Gáttuð á því að lögin verðlauni hústökufólki innbrot – „Einhver braust inn í húsið mitt og ég þarf að svara til saka fyrir dómi?“

Pressan
Þriðjudaginn 2. apríl 2024 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Víða um heim hafa réttindi fasteignaeigenda stundum mátt sín lítils gagnvart lagaákvæðum sem hafa tryggt hústökufólki réttarvernd líkt og um leigjendur sé að ræða. Það þrátt fyrir að fólkið hafi tekið upp búsetu í fasteign án heimildar og greiði ekki fyrir það leigu.

Undanfarið hefur fjöldi frétta borist frá Bandaríkjunum um þessi mál, en má þá einkum nefna hópinn „Hústökuliðar“ eða „Squatters Squad“ í Kaliforníu sem ákvað að taka lögin í eigin hendur og bókstaflega bera hústökufólk út.

Myndband hefur farið víða þar sem hópurinn hefur fengið liðsinni úttektaraðila við útburðinn. Sá fer inn á heimilið og er svo skipt um lása og tryggt að hústöku fólkið komist ekki aftur inn. Heyra má hústökufólkið hóta því að hringja á lögregluna, en lét hópurinn það ekki hræða sig frá.

Hópurinn segist hafa löglega borið hústökufólk út síðan árið 2018. Til þess sé gripið til ýmissa aðgerða sem eigi það sameiginlegt að vera innan ramma laganna. Til dæmis þá geti úttektaraðili komið inn í húsnæði með skömmum fyrirvara og án þess að úrskurður liggi fyrir.

Fyrir viku bárust fréttir frá hverfi hinna ríku og frægu, Beverly Hills, en þar hafði hústökufólk tekið yfir lúxuseign. Hústökufólkinu var lýst sem tækifærissinnum sem hafi notfært sér að húsið var mannlaust til að taka sér stöðu í samfélagi elítunnar og halda íburðarmikil partý. Ekki er um útigangsfólk að ræða heldur var í hópnum maður að nafni Morgan Gargiulo sem er leikari. Hann gaf út falsað afsal til að eigna sér húsið. Hann hélt svo svakaleg partý og rukkaði fyrir aðgang en þannig gat hann haldið partýinu gangandi. Hann leigði eins út herbergi á allt að 45 þúsund fyrir nóttina.

Þegar eignarhald hans var dregið í efa sagðist hann njóta réttinda sem leigjandi. Tilraunir lögreglu til að koma honum út báru ekki árangur fyrr en löglegt útburðarferli fór í gang í janúar. Leikarinn og félagar ákváðu að gefast upp og sömdu við eigendur um að rýma húsið.

Samkvæmt lögum í Kaliforníu getur hústökufólk öðlast eignarrétt fyrir hefð eftir fimm ár af óslitinni hústöku. Leikarinn náði ekki að halda partýinu gangandi það lengi, en mál hans þykir þó sýna að lagabreytinga sé þörf.

Handtekin, drepin

Kona var handtekin fyrir nokkrum vikum í New York, eftir að hún henti hústökufólki út úr eign sem hún hafði fengið í arf frá foreldrum sínum. Þegar hún vitjaði eignarinnar reyndist hústökufólk hafa tekið upp búsetu þar. Lögregla hjálpaði henni að koma fólkinu út en það sneri strax til baka í lögreglufylgd og sakaði eigandann um innbrot. Hún var í kjölfarið kærð fyrir ólögmætan útburð.

Málið þótti varpa ljósi á að ríkur réttur hústökufólks væri ógn við eignarréttinn. Ekki bætti úr skák þegar lögregla handtók tvo hústökumenn í mars, sem eru grunaðir um að hafa banað eigandanum. Konan hafði fengið íbúð í Manhattan í arf eftir móður sína og fann hústökufólk þar. Áður en hún náði að bregðast við var hún myrt.

Í Jacksonville Flórída lenti kona að nafni Patti Peeples í stappi við hústökufólk. Það tók hana mánuði að koma þeim út úr húsi sínu þar sem þau höfðu útbúið falsað afsal, auk þess sem þau ollu gífurlegu eignatjóni. Nágrannar Patti kvörtuðu eins undan hústökufólkinu en það hefði haldið hverfinu í gíslingu í næstum hálft ár.

Ríkisstjórinn í Flórída brást í kjölfarið við með lagabreytingu til að heimila tafarlausan útburð á hústökufólki. Á sama tíma voru hörð viðurlög lögfest við því að framvísa fölsuðum eignar- eða afnotaheimildum yfir fasteign. Eins var lögfest skaðabótaskylda hústökufólks.

Stefnt af fólkinu sem braust inn

Í gær greindi New York Post máli Juliya Fulman og manni hennar. Þau eiga fasteign í Queens sem þau tóku nýlega í gegn og auglýstu til leigu. Eftir að þau fundu leigjendur hafði fasteignasali þeirra samband og greindi þeim frá því að einhver hefði skipt um lása í eigninni.

Þegar lögregla var kölluð á vettvang sagðist hústökufólkið hafa dvalið í eigninni í tvo mánuði, en gátu þó ekki sannað mál sitt. Lögregla vísaði hústökumönnum á dyr og ætlaði fasteignasalinn þá að skipta aftur um lása. Lögregla varaði þó við að ef fasteignasalinn gerði slíkt yrði hún handtekin.

Hústökufólkið kom aftur degi síðar og framvísuðu meintum leigusamning. Juliya og maður hennar voru líka mætt og framvísuðu afsali og sönnunum fyrir því að húsið hafi verið mannlaust þar til nýlega. Þá skiptu þau loksins um lás. En skaðinn var skeður enda höfðu hústökumenn rústað eigninni.

Til að bæta gráu ofan á svart barst þeim svo 10 dögum síðar stefna. Hústökufólkið var að stefna þeim fyrir dóm á grundvelli falsaðs leigusamnings. Málið er enn til meðferðar en dómari mælti gegn því að Juliya afhenti húsnæðið nýjum leigjendum fyrr en niðurstaða væri komin.

„Dómskerfið er óvinveitt leigusölum. Það gæti tekið okkur heilu árin að bera út fólk sem braust inn í húsið okkar. Hvernig er það löglegt? Hvers vegna að leggja hart að sér til að borga leigu eða íbúðalán þegar það er bara hægt að brjótast inn einhvers staðar á nokkra ára fresti og lifa þar í munaði? […] Einhver braust inn í húsið mitt og ég þarf að svara til saka fyrir dómi? Hvernig er hægt að vera í þessari stöðu? Hvernig er þetta mögulegt? Það verða að vera einhverjar öryggisráðstafanir í svona málum.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna
Pressan
Fyrir 2 dögum

Guinness í jákvæðum vanda – Neyðast til að takmarka sölu

Guinness í jákvæðum vanda – Neyðast til að takmarka sölu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann
Pressan
Fyrir 5 dögum

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar