Manchester City er búið að sætta sig við að félagið muni tapa hressilega á félagaskiptum Kalvin Phillips.
Phillips gekk í raðir City frá Leeds sumarið 2022 fyrir 42 milljónir punda. Hann var þó aldrei inni í myndinni hjá Pep Guardiola og í janúar á þessu ári var hann lánaður til West Ham út leiktíðina.
Þar hefur ekkert gengið og er Phillips allt annað en vinsæll hjá stuðningsmönnum.
Daily Mail segir nú frá því að City sé reiðubúið að selja Phillips í sumar og átti sig á því að það fái ekkert nálægt þeim 42 milljónum punda sem félagið borgaði fyrir hann.
Samkvæmt frétt breska miðilsins sættir City sig við um 30 milljónir punda fyrir leikmanninn, sem á enn rúm fjögur ár eftir af samningi sínum við félagið.