Hættan á að stórar flóðbylgjur skelli á Grænlandi eykst samhliða hlýnandi loftslagi að því er segir í umfjöllun Ingeniøren. Ástæðan er að loftslagsbreytingarnar valda því að Grænlandsjökull hopar og það eykur líkurnar á skriðuföllum úr fjöllum.
Hvergi í heiminum hækkar lofthitinn jafn hratt og á Grænlandi og Norðurskautinu. Frá lokum nítjándu aldar hefur meðalhitinn á Norðurskautinu hækkað um 4 gráður en til samanburðar má nefna að á heimsvísu er hækkunin 1,2 gráður.
Í framtíðinni má reikna með að hlýnunin á Norðurskautinu verði tvöfalt hraðari en á heimsvísu.
Grænlandsjökull og sífrerinn eru einhverskonar steypa sem sjá til þess að jafnvægi helst i fjöllum á Grænlandi. Þegar ísinn bráðnar og jarðvegurinn þornar verða fjöllin óstöðug sem eykur líkurnar á skriðuföllum og þar með flóðbylgjum.
Danska jarðfræðistofnunin segir að sérstaklega mikil hætta sé á skriðuföllum í Vaigasundi á vestanverðu Grænlandi og geti skriður ógnað byggð þar.
Flóðbylgjan í Karratfirði 2017 var 90 metrar þegar hún var hæst en það er ekkert miðað við risaflóðbylgjuna sem myndaðist við Grænland fyrir 10.000 árum. Þá féll 8,4 rúmkílómetra skriða í sjó fram og myndaði 280 metra háa flóðbylgju að því er segir í rannsókn sem Danska jarðfræðistofnunin gerði. Til samanburðar má nefna að Hallgrímskirkja er 74,5 metra há. Flóðbylgjan var því næstum jafnhá og ef fjórum Hallgrímskirkjum væri staflað hverri ofan á aðra. Skriðan sem myndaði flóðbylgjuna er sú stærsta sem vitað er um að hafi fallið á allri jörðinni.