Berlingske skýrir frá þessu og segir að þetta hafi komið fram í skýrslu sem Sophie Løhde, heilbrigðisráðherra, flutti heilbrigðisnefnd þingsins nýlega.
Í máli hennar kom fram að öllum landsmönnum verði boðið upp á bólusetningu og til að það sé hægt verði að vera til 11,7 milljónir skammta af bóluefni en landsmenn eru um 5,5 milljónir. Venjulega eru gefnir tveir skammtar af bóluefni og því þarf tæplega 12 milljón skammta til að hægt sé að bólusetja alla landsmenn.
Samkvæmt núgildandi áætlunum á að vera hægt að bólusetja tæplega tvær milljónir landsmanna og því þarf að grípa til umfangsmikilla aðgerða til að hægt verði að bjóða öllum landsmönnum upp á bólusetningu ef til heimsfaraldurs kemur.
Innanríkis- og heilbrigðismálaráðuneytið segir að „heimsfaraldurstryggingin“ verði virkjuð þegar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO lýsir því yfir að heimsfaraldur sé skollinn á.
Með „tryggingunni“ á að tryggja að dönsk yfirvöld geti keypt bóluefni, gegn heimsfaraldri inflúensu, á markaði sem verður væntanlega „erfiður og dýr“.
Landlæknisembættinu hefur verið falið að kanna stöðuna á markaði til að kortleggja hverjir geta boðið upp á bóluefni en yfirvöld vilja ekki skýra frá hver kostnaður af kaupum á svo miklu magni bóluefna getur orðið.