Í samtali við úkraínsku fréttastofuna Ukrinform sagði hann að eftir endurskoðun á búnaði og mannafla hersins liggi fyrir að mun minni þörf sé fyrir nýja hermenn en áður var talið. Þetta á að hans sögn ekki bara við um þá sem eru kvaddir í herinn, heldur einnig sjálfboðaliða.
Syrskyi tók við embætti æðsta yfirmann hersins í febrúar. Forveri hans sagði á síðasta ári að þörf væri á að kveðja 500.000 menn í herinn. Þau ummæli ollu miklum pólitískum óróa og deilum og Zelenskyy, forseti, neyddist til að vísa þessum ummælum á bug.
Syrskyi, sem sá um að stýra vörnum höfuðborgarinnar Kyiv í upphafi innrásar Rússa og stýrði sókn Úkraínumanna sem varð til þess að þeir náðu milljónaborginni Kharkiv aftur úr höndum Rússa, sagði í viðtalinu að staðan „sé mjög erfið“ á öllum vígstöðvum en Rússum hafi ekki tekist að sækja fram að neinu marki þrátt fyrir að Úkraínumenn skorti skotfæri og fleira.
Hann sagði að Rússar hafi yfirhöndina þegar kemur að magni skotfæra og fjölda hermanna. Fyrir hverja eina fallbyssukúlu sem Úkraínumenn skjóta, skjóta Rússar sex.