Ása Guðbjörg Ellerup segist fara vikulega í Suffolk County fangelsið í Riverhead til að heimsækja eiginmann sinn sem situr í gæsluvarðhaldi á meðan hann bíður þess að ákæra á hendur honum, fyrir fjögur morð, verði tekin fyrir af dómstólum.
Rex Heuermann er grunaður um að hafa banað fjórum konum og komið líkum þeirra fyrir við Gilgo-ströndina við Long Island í New York. Þegar líkamsleifar kvennanna fundust á árunum 2010-2011 taldi lögregla strax ljóst að sami maður bæri ábyrgð á morðunum og að raðmorðingi gengi laus í New York.
Það var ekki fyrr en síðasta sumar sem lögregla lét til skara skríða gegn Heuermann og handtók hann um hábjartan dag í júlí þar sem hann var á göngu í Manhattan. Á sama tíma braut lögregla sér leið inn á heimili Heuermann og Ásu til að framkvæma þar húsleit.
Nokkrum dögum síðar sótti Ása formlega um skilnað, en að sögn lögmanns hennar mun það einkum eiga rætur að rekja til mögulegrar bótaábyrgðar Heuermann gegn fjölskyldum meintra þolenda sinna. En eftir skilnað geti fjölskyldurnar ekki krafið Ásu um miskabætur.
Ása hefur þó gefið út að hún ætli að leyfa eiginmanni sínum að njóta vafans áður en hún tekur afstöðu til sakargiftanna. Hún í hjarta sínu trúi ekki að hann sé fær um slík ódæði og ætlar að mæta við aðalmeðferð og leggja sjálf dóm á málflutning ákæruvaldsins. Hún segist hafa samúð með fjölskyldum hinna látnu, enda eigi enginn skilið að láta lífið við sömu aðstæður og konurnar á Gilgo-ströndinni. Þetta kemur fram í nýlegri yfirlýsingu Ásu sem lögmenn hennar komu á framfæri fyrir hana. Margir fjölmiðlar ganga á eftir Ásu með grasið í skónum í von um viðtal.
Það mun þó vera takmarkað sem Ása getur tjáð sig í skjóli samnings um gerð heimildaþátta um mál eiginmanns hennar. Fyrir þátttöku fá Ása, börn hennar og lögmenn þeirra tugi milljóna.
Ása segir í yfirlýsingu sinni og hefur áður sagt, að hún heimsæki Heuermann vikulega. Það mun þó ekki vera alveg rétt, en samkvæmt upplýsingum frá fangelsinu hafði Ása um miðjan mars, aðeins skráð sig 7 sinnum inn í fangelsið.
Margir hafa furðað sig á afstöðu Ásu, enda jafnvel þó Heuermann reynist að lokum saklaus, þá hafi gögn í málinu þó gefið fullt tilefni til að efast um mannkosti hans. Svo sem gífurlegur áhugi hans á ofbeldisfullu klámi, nauðgunum og pyntingum. Inn á Reddit-síðunni LISKiller velta netverjar fyrir afstöðu Ásu.
„Hegðun hennar er mjög vafasöm, og ég man hversu mikið við fundum til með henni og börnunum eftir að fréttirnar bárust fyrst.“
„Það eitt að hann hafi leitað af þessum ógeðslegu hlutum á sínu eigin heimili þar sem börnin þeirra bjuggu ætti að láta hana hlaupa upp hlíðarnar.“
„Hún ætti þá kannski að útskýra hvernig hár úr henni sjálfri fundust á þremur af fjórum hinna látnu.“
„Líklegasta skýringin er að hún sé í afneitun. Það er það eina sem skýrir þetta. Afneitun fylgir ekki rökhugsun“
„Hún hefur verið háð þessum manni guð veit hvað lengi. Hún var heimavinnandi húsmóðir og maðurinn hennar og börnin voru allur heimurinn hennar.“
„Ég velti því fyrir mér hvort hann hafi eitthvað tak á henni. Ég tel sjálfa mig nokkuð greinda konu en samt hef ég endaði í samböndum þar sem, þrátt fyrir yfirþyrmandi sannanir um viðvarandi framhjáhald, náði gaurinn að hneppa mig aftur í lygavef sinn.“
„Guð einn má vita hvað hún mátti lifa við. Hversu miklar andlegar og líkamlegar pyntingar mögulega. Fyrir mér virðist hún hafa mátt þola áratuga þjáningar frá þessum sadista. Mér gæti skjátlast en það er ekki séns að hún hafi átt eðlilegt líf með þessum kvalalosta morðingja.“
„Enginn veit hvernig þeir myndu bregðast við að standa í hennar sporum og líklega er hann búinn að ráðskast með hana út fyrir alla skynsemi. Hún gæti verið í afneitum og væri það einu sinni skrítið? Hver veit hvað hann er að segja við hana.“
„Líklega notaði hann Ásu sem „skegg“ til að dulbúa afbrigðilegar kenndir sínar og til að dulbúa sig sem eðlilegan fjölskyldumann. Hún tók óafvitandi þátt í þessari hylmingu.“
„Þegar sönnunargögnin úr geymslunni verða opinberar mun enginn efast um sekt hans. Réttarmeinalæknir var kallaður á vettvang svo fólk getur dregið ályktanir um hvað fannst þar.“
Meðal helstu sönnunargagna í málinu eru hár sem fundust á hinum látnu. Þar fundust hár úr Heuermann, Ásu og dóttur þeirra Victoriu. Talið er að hárin úr Ásu og dóttur hennar hafi borist á vettvang með annað hvort beltum sem voru notuð til að binda eina konuna eða með strigapokum sem líkunum hafði verið komið fyrir í.