Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segir að enginn utan þröngs samsærisheims Pútíns trúi því að Úkraínumenn með aðstoð leyniþjónustu Bandaríkjanna, hafi eitthvað haft að gera með hryðjuverkaásina í tónleikasalnum í Croscus-miðstöðinni þann 22. mars síðastaliðinn. Pútín og Rússar hafa reynt að klína ábyrgðinni af árásinni á Úkraínu en þó hafa hryðjuverkasamtökin ISIS lýst yfir ábyrgð á ódæðinu.
Björn segir í grein í Morgunblaðinu:
„Kremlverjar eru orðnir svo samdauna lyginni í gerviheiminum sem þeir skapa með áróðri sínum og innrætingu að engar viðvaranir duga um alvarlega hættu sem steðjar að þeim og borgurum þeirra.“
Hann bendir á að Pútín hafi tekið viðvörunum Bandaríkjamanna um yfirvofandi hryðjuverkaárás sem ögrun og ekki tekið mark á henni. Hann bendir á að við Crocus-tónleikasalinn hafi ekki verið nein öryggisægsla enda snúist allt öryggiskerfi ríkisins um Pútín og þá sem standa honum næstir.
Björn vitnar til ummæla sérfræðingins Owen Matthews sem segir ógnvekjandi að samsæriskenningar og ímyndanir einkenni málflutning upplýsingafulltrúa Rússlands, ríkis sem er kjarnorkuveldi og á fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Björn segir ennfremur:
„Þegar Pútín komst til valda fyrir aldarfjórðungi lofaði hann Rússum velsæld og öryggi enda fengi hann að skerða frelsi þeirra, segir Matthews. Nú séu þessar forsendur brostnar. Hann hafi enga burði til að tryggja þjóðaröryggi. Honum hafi mistekist að leggja undir sig Úkraínu með leiftursókn árið 2022. Árið 2023 hafi Jevgeníj Prígósjín næstum tekist að fella hann með einkaher sínum. Nú sitji hann uppi með hryðjuverk í Moskvu þótt bandaríska leyniþjónustan hafi rétt gjörónýtum þjóðaröryggisstofnunum hans hjálparhönd. Pútín hefur svipt Rússa öryggi og velsæld er dómur Owens Matthews.
Þetta er ömurleg og hættuleg staða í öllu tilliti nú um páska 2024. Hún batnar ekki við að örvænting Pútíns fái útrás með hryðjuverkum hans í Úkraínu.“