Ég horfði á dögunum á eina kunnustu mynd Ingmars Bergman, Sjöunda innsiglið eða Det sjunde inseglet. Nafnið er sótt til Opinberunarbókarinnar. Á himni er þögn áður en englarnir rjúfa innsiglin og yfir jörðina steypast plágur, styrjöld, örbirgð, drepsóttir og dauði. Ingmar Bergman var prestssonur og hafði sem drengur á ferð með föður sínum séð á vegg í lítilli kirkju í Smálöndum málaða engla, dreka, básúnur, djöfla, mannlegar verur og riddara tefla við dauðann. Þetta varð honum innblástur verksins en þarna birtist sú myndlíking að tilveran sé tafl mannsins við dauðann — og dauðinn mun fara sínu fram þó taflið veiti frest.
„Og englarnir sjö, sem héldu á básúnunum sjö, bjuggu sig til að blása. Hinn fyrsti básúnaði. Þá kom hagl og eldur, blóði blandað, og því var varpað ofan á jörðina. Og þriðjungur jarðarinnar eyddist í loga, og þriðjungur trjánna eyddist í loga, og allt grængresi eyddist í loga. Annar engillinn básúnaði. Þá var sem miklu fjalli, logandi af eldi, væri varpað í hafið. Þriðjungur hafsins varð blóð.“
Kvikmynd Bergman hefst á þessum spádómi úr opinberun Jóhannesar en þegar hún var frumsýnd um miðbik sjötta áratugarins fannst mörgum þetta minna illþyrmilega á eyðileggingarmátt atómsprengjunnar — raunverulega ógn sem menn bjuggu við á þeim tíma, en persónur myndarinnar, sem á að gerast á fjórtándu öld, hræðast pestina sem vofir yfir þeim líkt og sverðið sem hékk yfir hirðmanninum Damóklesi á einu hrosshári. Ógnin af atómsprengjunni var líka raunveruleg fyrir Íslendingum eins og lesa má um í skýrslu Almannavarna ríkisins frá því mars 1963 sem ég blaðaði í á dögunum. Þar kemur fram að yrði eins megatonns atómsprengju varpað á Keflavíkurflugvöll og geislavirkt úrfall bærist þaðan yfir suðvesturhluta landsins yrði það að líkindum meirihluta landsmanna að fjörtjóni.
Kjarnorkuváin er mönnum aftur orðin hugstæð, nú þegar í álfunni geysar mesti ófriður frá því í síðari heimstyrjöld og viðbúið að fram haldi næstu árin með sífelldri stigmögnun eins og það er kallað; eyðileggingu, örkumlun, dauða. Og engan þurfti að undra að sigursælasta kvikmynd nýliðinnar Óskarverðlaunahátíðar var stórvirki Christophers Nolan um J. Robert Oppenheimer, föður atómsprengjunnar, en myndin er byggð á ævisögu hans eftir Kai Bird og Martin J. Sherwin sem út kom árið 2005 og ber heitið American Prometheus. Um Prómeþeif má lesa í Verkum og dögum Hesíódosar, en hann rændi eldinum og færði mönnunum. Í refsiskyni sendu guðirnir Pandóru til mannheima með öskju fulla pesta sem síðan hafa hrjáð mennina. Og ekki nóg með það heldur var Prómeþeif sjálfum refsað með þeim hætti að hann var fjötraður við klett þar sem örn át úr honum lifrina á degi hverjum en að næturlagi greri hún jafnharðan.
Í hinum heiðna sið er óhugnaðurinn í ríki guða engu minni en í mannheimi.
Stundum er sagt að ljóðið „rati til sinna“. Í gær rak ég fyrir tilviljun augun á fallega innbundið ljóðasafn Snorra Hjartarsonar sem ég hafði gleymt að ég ætti uppi í hillu. Ég opnaði safnið og við mér blasti kvæðið Í garðinum sem birtist fyrst í ljóðabókinni Á Gnitaheiði sem út kom 1952, en á Gnitaheiði lá Fáfnir á gulli sínu, Fáfnir sem Sigurður Sigmundsson banaði. Kvæðið er samt miklu nær í tíma og rúmi og engu líkara en við lesandanum blasi gorkúluskýið:
álengdar rís og hnígur þúsundvængjaður þytur
þungaður feigð og kvöl
Skáldið sækir líka innblástur í frásögn guðspjallanna af örvæntingu Krists í Getsemane:
Þið sofið, svo fast hefur blekkingin gullna bitið.
Það bjarmar á hjálmaða menn undan hverri grein.
Líkingamálið er magnþrungið er „gnýrinn vex“ og „hallfleytt stálfuglager“ rís yfir bleika jörð.
Þrátt fyrir hryllinginn má greina vonarneista og kvæði Snorra endar á þessum hendingum:
enn er vegljóst, vakið í garðinum, trúið
og vitið ég kom hingað aftur í friðhelgri tign.
Hallgrímur Pétursson teflir líka hjálpræði Krists gegn grimmd dauðans:
Með sínum dauða hann deyddi
dauðann og sigur vann,
segir í sálminum Um dauðans óvissan tíma sem sunginn hefur verið yfir moldum Íslendinga í hálft fjórða árhundrað — og þetta, einmitt þetta, er kjarninn í boðskap kristninnar sem vert að huga að á páskum:
Enn er vegljóst sama hvað á dynur.