Hreint ótrúlegum hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar á milli Newcastle og West Ham var að ljúka. Þar var mikið um dramatík.
Newcastle komst yfir strax á 6. mínútu með marki Alexander Isak af vítapunktinum. Gestirnir frá London tóku þó við sér og áttu eftir að nýta sénsana sína í fyrri hálfleik. Michail Antonio jafnaði á 21. mínútu áður en Mohammed Kudus kom þeim yfir seint í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Snemma í seinni hálfleik skoraði Jarrod Bowen fyrir West Ham. 1-3 og staðan orðin vænleg fyrir gestina.
Newcastle gafst þó ekki upp og eftir tæpan stundarfjórðung minnkaði Isak muninn, aftur af vítapunktinum en Kalvin Phillips hafði fengið dæmt á sig víti.
Meðbyr var með heimamönnum í kjölfarið og Harvey Barnes jafnaði á 83. mínútu. Dramatíkinni var ekki lokið. Barnes skoraði fjórða mark Newcastle á 90. mínútu og reyndist það sigurmarkið. 4-3.
Newcastle þurfti að vísu að verjast manni færri síðustu mínútur uppbótartímans þar sem Anthony Gordon fékk sitt annað gula spjald. Það kom ekki að sök.
Newcastle er í áttunda sæti deildarinnar, nú aðeins stigi á eftir West Ham sem er sæti ofar og búið með leik meira.