Manchester United goðsögnin Rio Ferdinand viðurkennir að Jonny Evans, varnarmaður liðsins, hafi komið sér mikið á óvart á leiktíðinni.
Evans gekk aftur í raðir United í sumar á frjálsri sölu eftir að hafa yfirgefið Leicester.
„Það má færa rök fyrir því að hann hafi verið besti varnarmaður okkar í ár og það segir ansi margt. Þegar hann skrifaði undir hugsaði ég hvernig við gætum verið að fá hann aftur á þessum tímapunkti,“ segir Ferdinand um fyrrum liðsfélaga sinn Evans.
Svo hefur farið að hinn 36 ára gamli Evans hefur spilað 24 leiki með United á leiktíðinni.
„Hann hefur komið inn og gert mjög vel. Ég var með honum á æfingasvæðinu um daginn og hann sagði að það kæmi sjálfum honum á óvart hversu mikið hann hefur spilað. Þetta sýnir hversu góður atvinnumaður hann er. Þú þarft að vera undirbúinn þegar kallið kemur og það hefur hann verið,“ segir Ferdinand.