fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Hvers vegna er lögreglan að rannsaka Diddy og verður Jay-Z næstur? – Dularfullt mannshvörf, Biggie Smalls og Tupac dregin í umræðuna

Fókus
Föstudaginn 29. mars 2024 18:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fátt er um annað rætt í slúðurheim Hollywood en mál rapparans Sean „Diddy“ Combs sem er til rannsóknar fyrir meinta aðkomu sína að mansali. Við upphaf vikunnar mætti lögregla vopnuð á heimili rapparans til að framkvæma þar húsleit og eins hafði lögregla afskipti af rapparanum sem var á leið til Bahama eyja og gerði símtæki hans upptæk.

Það er ekki á hverjum degi sem lögregla gengur fram af slíku offorsi við stórstjörnu, en aðgerðir þessar koma í kjölfar fjölda einkamála sem hafa verið höfðuð gegn rapparanum þar sem hann er borinn þungum sökum um ofbeldi, mansal, kynferðisbrot, fíkniefnabrot og svona mætti áfram telja. Í stefnu tónlistarframleiðandans Lil Rod sem var lögð fram á þessu ári er Diddy kallaður Epstein hiphop-heimsins, en eins hefur Diddy verið líkt við Harvey Weinstein.

Sögur hafa gengið um rapparann áratugum saman og talið er að aðgerðir lögreglu gegn Diddy séu aðeins upphafið og að önnur stór nöfn í rappsenunni gætu verið næst, þar með talið Jay-Z.

Fjölmiðlar hið ytra hafa varla við að gera grein fyrir ábendingum sem þeim eru nú að berast um Diddy og aðila tengdum honum, en þar að auki liggur slúðurheimurinn nánast á hliðinni.

Notfærir sér völdin

Heimildir New York Post herma að Diddy eigi sér langa sögu um að nota peninga og völd til að fá aðra til að gera skítverk sín.

„Aðrir gera hlutina fyrir hann svo hans hendur eru alltaf hreinar,“ sagði heimildarmaður.

Post greinir frá því að rappari að nafni Mark Curry sem var á samningi hjá útgáfu Diddy, Bad Boys Records, skömmu eftir aldamótin hafi sagt um fyrrum lærimeistara sinn: „Hann er umkringdur af áhrifafólki. Þegar þú hugsar um tónlistargeirann… þá er mikið af ólöglegum hlutum að eiga sér stað bak við luktar dyr. Hann notfærði sér mikið af fólki sem átti sér drauma.

Óskarsverðlaunahafinn

Eins og áður er vikið að þá hefur framleiðandinn Lil Rod stefnt Diddy og sakar hann meðal annars um kynferðisbrot og mansal. Lil Rod greinir í stefnu frá því að Diddy hafi haft burðardýr á sínum vegum sem sáu um að smygla inn fyrir hann fíkniefnum. Hafi Diddy til dæmis haft dálæti á svonefndu bleiku kókaíni sem er blanda af kókaín, englaryki og alsælu. Eins hafi Diddy öllum tímum verið með minnst tvær konur á launum við að stunda vændi. Meðal annars hafi þetta verið áhrifavaldar á samfélagsmiðlum og konur sem hafi jafnvel átt í ástarsamböndum við þekkta einstaklinga. Ein sem Rod nefnir sérstaklega er fyrrverandi kærasta rapparans 50 cent.

Starfsmannastjóri Diddy hafi tryggt að starfsfólk væri sífellt með mittistöskur á sér sem væru fullar af vímuefnum svo Diddy gæti fengið fíkniefni eins og hendi væri veifað.

Rod nefnir fjölda þekktra einstaklinga í stefnu sinni. Svo sem Óskarsverðlaunahafann Cuba Gooding Jr. Gooding hafi beitt Rod kynferðislegri áreitni í janúar á síðasta ári þegar þeir voru staddir saman, með Diddy, í siglingu.

Samkvæmt Rod var Diddy þó sjálfur mun verri en Gooding, en Rod hafi þurft að þola sífellda áreitni frá rapparanum sem hafi stöðugt verið að káfa á honum í heimildarleysi.

Jennifer Lopez og skotárás

Nú eftir að lögregla hefur haft afskipti að málum Diddy hefur fjöldi fólks stigið fram og kallað eftir því að meint aðkoma rapparans að voðaverkum í gegnum tíðina verði tekin til skoðunar.

Ein slík áskorun kemur frá Natania Reuben sem var einn þolenda skotárásar á skemmtistað í New York árið 1999. Hún segist sannfærð um að Diddy beri ábyrgð á árásinni.

„Ég bókstaflega horfði á þau taka upp byssurnar. Ég sá þetta skýrt. Ég meina í öllum bænum, ég var skotin í nefið, ég horfði beint á þau. Ég horfði á allt gerast og lýsti því í smáatriðum fyrir alla sem málið varðaði,“ sagði Natalia í viðtali í gær. „Ég er enn með níu brot úr skotum föst í andlitinu á mér.“

Lögregla handtók félaga Diddy, Borrow, eftir árásina og dæmdi hann fyrir ódæðið. Natania hefur harðlega gagnrýnt sakfellinguna og segir ótrúlegt að Borrow hafi verið trúað frekar en henni. Hún hafi horft á Diddy skjóta sig. Diddy hafi aðeins verið kærður fyrir vopnalagabrot, nokkuð sem hann var svo sýknaður af. Natania telur ljóst að Borrow hafi verið fenginn til að taka á sig sök.

Lil Rod tekur skotárásina fyrir í stefnu sinni og segir Diddy hafa lýst yfir ábyrgð í samtali þeirra. Diddy hafi átt til að veifa byssum sínum og monta sig af því að hafa komist upp með að skjóta fólk.

Rod tók fram að skotárásin átti sér stað á þeim tíma sem Diddy átti í ástarsambandi við söng- og leikkonuna Jennifer Lopez, en Diddy hafi sagt að leikkonan hafi verið viðstödd árásina og haldið á vopnum fyrir hann.

Natania segir að ef þetta reynist rétt þá sé ljóst að Jennifer Lopez, sem gaf skýrslu fyrir dóm eftir árásina, hafi logið að kviðdómi og það sé alvarlegt mál.

Skuggalegir þöggunarsamningar

Miami Herald greinir frá því að flestir í lífi Diddy hafi verið látnir skrifa undir þöggunarsamninga. Miðillinn hefur slíkan samning undir höndum og fékk lögmann til að greina efni hans. Sá sagði samninginn kveikja á öllum viðvörunarbjöllum.

Þöggunarsamningar, eða svokallaði NDA-samningar eða trúnaðarsamningar, séu algengir í kringum stórstjörnur og fjalla vanalega um friðhelgi einkalífs. En samningur Diddy sé mun víðtækari og rýmri en gengur og gerist.

„Skorturinn á skýrri lýsingu á því hverja má ræða og hverja má það ekki er skelfileg,“ sagði lögmaðurinn sem sagði ljóst að hér sé svokallaður þöggunarsamningur á ferð sem miði ekki að því að vernda einkalíf Diddy heldur að múlbinda fólkið í kringum hann um nánast hvað sem er. Orðalagið sé svo opnið fyrir túlkun og óskýrt að það sé ekki furða að fólk hafi óttast að tjá sig um Diddy í gegnum tíðina. En lögmaðurinn telur þó að samningur að þessu tagi yrði aldrei tekinn gildur af dómstólum.

Vinurinn sem hvarf

Lil Rod segir Diddy vera höfuðpaurinn í stóru glæpaveldi sem snýst um fíkniefni, völd og mansal. Ekki sé óþekkt að fólk sem Diddy er í nöp við hreinlega hverfi. Rod greinir frá tilviki þar sem hann sá Diddy loka sig af inn á salerni bensínstöðvar með syni sínum og vini sonarins. Þegar hurðin opnaðist aftur var vinurinn liggjandi í blóði sínu á gólfinu. Rod hafi hjálpað vininum að komast undir læknishendur en fljótlega eftir það hafi vinurinn horfið og ekki meira til hans spurst.

50 cent, Biggie Smalls og Tupac

Rapparinn 50 cent hefur lengi eldað grátt silfur með Diddy. Deilur þeirra hófust skömmu eftir aldamótin. Eðlilega hefur 50 cent hlakkað yfir hrakförum Diddy undanfarið og hefur boðað heimildarmynd sem hann ætlar að gefa út um málið sem kallast: Diddy Do It? Eða, gerði Diddy það?

Ekki er þetta í fyrsta sinn sem 50 cent gefur til kynna að Diddy sé sekur um eitthvað misjafnt. Margir muna eftir lagi 50 Cent sem kallaðist The Bomb þar sem hann gef til kynna að Diddy hafði haft eitthvað með morðið á rapparanum Notorious B.I.G að gera árið 1997. Þar rappaði 50 cent:

„Hver skaut Biggie Smalls? Við munum ekki ná þeim, þei rmunu drepa okkur öll. Gaur, Puffy veit hver drap þennan [orð sem aðeins svartir mega segja]“

Eins hefur lengi verið slúðrað um meinta aðkomu Diddy að morðinu. á rapparanum Tupac. Í raun hafa einhverjir velt því upp að húsleitin á dögunum hafi tengst rannsókn morðsins. Fyrrum alríkislögreglumaður, Phil Carson, telur það. Hann segir að líklega sé verið að fylgja eftir ábendingu frá Keefe D, maðurinn sem í fyrra var ákærður fyrir morðið. Carson varði sjálfur árum að rannsaka meinta spillingu innan lögreglunnar í tengslum við rannsókn morðanna á Biggie og Tupac. Carson segir að Keefe D sé að öllum líkindum sekur, en eftir að hann var handtekinn hafi Keefe sagt að hann hafi fengið milljón dollara frá Combs fyrir morðið.

Verður Jay-Z næstur?

Einn valdamesti maðurinn í hiphop heiminum er Jay-Z sem jafnframt er giftur einni áhrifamestu poppstjörnu fyrr og síðar, Beyoncé. Jay-Z hefur líka lengi verið orðaður við morðið á Biggie Smalls og ekki nóg með það heldur gengur sú saga að hann hafi fyrir nokkrum árum óvart barnað konu sem hann hélt við og svo látið koma henni fyrir kattarnef.

Cathy White lést með dularfullum hætti árið 2011, fljótlega eftir að Jay-Z og Beyoncé tilkynntu opinberlega að þau ættu von á barni. Áður en hún lést höfðu sögur lengi flogið um að hún og Jay-Z ættu í ástarsambandi, eftir að myndir náðust af henni sitja með Jay-Z og Diddy á skemmtistað. White lést út af slagæðagúlp og náði því ekki að mæta í viðtal sem hún hafði lofað blaðamanni og átti að afhjúpa ástarsambandið. Blaðamaðurinn trúir því ekki að tilviljun hafi ráðið því að Cathy lést fyrir viðtalið, enda varla algengt að heilbrigð 28 ára kona fái slagæðagúlp upp úr þurru.

Margir telja líklegt að Jay-Z gæti verið næstur í aðgerðum lögreglu. Hann hafi lokað á Diddy eftir að kærurnar streymdu inn gegn honum og því muni Diddy hefna sín með því að greina lögreglu frá þeim fjölmörgu brotum sem Jay-Z hafi átt þátt í og jafnvel eiginkona Jay-Z sé farin að huga að skilnaði til að bjarga eigin nafni.

50 cent gekk svo langt að birta mynd af Jay-Z aftan á mjólkurfernu, en í Bandaríkjunum var gjarnan lýst eftir glæpamönnum á slíkum fernum.

Rétt er að taka fram að hér að ofan er gert grein fyrir slúðri og getgátum. Staðreyndirnar í málinu eru þær að stefnur hafa verið lagðar fram gegn Diddy og að lögregla hafi gert húsleit á heimili hans. Hvað slúðrið og sögusagnir varðar þarf að hafa í huga að í hiphop-heiminum sérstaklega fyrir og eftir aldamótin, skipti orðspor miklu. Ekki vildu rapparar vera þekktir sem ljúfmenni og áttu því nokkuð undir því að leyfa sögusögnum um aðkomu að morðum, skotárásum og öðrum voðaverkum að ganga. Það jók orðspor þeirra og virðingu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“