Það hafa margir áhyggjur af stöðu heimavallar Frankfurt fyrir komandi EM í Þýskalandi sem hefst í sumar.
Þessi leikvangur var notaður á þriðjudag er Þýskaland tók á móti Hollandi í vináttulandsleik.
Völlurinn þykir í raun vera í skelfilegu ástandi stuttu áður en flautað verður til leiks á EM sem hefst þann 14. júní.
Fimm leikir verða spilaðir á Deautsche Bank Park, þessum ágæta leikvangi, en nokkrir leikmenn liðanna kvörtuðu yfir grasinu á þriðjudag.
Jamal Musiala, leikmaður Þýskalands, gagnrýndi völlinn opinberlega og það sama má segja um Julian Nagelsmann, þjálfara þýska liðsins.
,,Það var eins og ég væri að skauta um í hvert skipti sem ég hreyfði mig. Það verður að laga þetta. Eins og er þá er völlurinn hættulegur,“ sagði Musiala á meðal annars.
Frankfurt þurfti að skipta um gras í nóvember í fyrra eftir að tveir NFL leikir voru spilaðir á vellinum og hefur nýtt gras ekki fengið góðar móttökur.