Allt er um koll að keyra í Los Angeles eftir að lögregla gerði áhlaup á heimili tónlistarmannsins Sean Diddy Combs. Dómstólar heimiluðu húsleitina og ákvað lögreglan að gefa tónlistarmanninum ekki ráðrúm til að koma mögulegum sönnunargögnum undan. Þar með er gert áhlaup þar sem lögregla mætir á svæðið, brýtur sér leið inn og snýr svo öllu á hvolf.
Vanalega er sakborningur handtekinn samhliða, en það gerði lögregla ekki í þessu máli. Því hefur lögmaður Diddy kallað aðgerðina fordæmalausa valdmisneytingu.
„Það er engin afsökun fyrir þessari gífurlegu valdbeitingu og djöfulgangi lögreglunnar, og engin afsökun fyrir því hvernig komið var fram við börn hans og starfsmenn. Herra Combs var ekki handtekinn heldur sýndi samstarfsvilja og ræddi fúslega við lögreglu. “
Diddy er til rannsóknar vegna gruns um mansal, nokkuð sem lögmaður hans kallar nornaveiðar enda séu ásakanirnar tilhæfulausar með öllu og eigi rætur að rekja til einkamála sem vanstilltir einstaklingar hafi höfðað gegn tónlistarmanninum til að hafa hann að féþúfu.
Þó Diddy hafi ekki verið handtekinn mun hald hafa verið lagt á fjölda símtækja sem fannst í fórum hans í Miami á mánudaginn, en þar var rapparinn við það að fljúga til Bahama-eyja. Eins hefur verið opinberað að lögreglan í Manhattan hafi yfirheyrt þrjár konur og einn karlmann vegna málsins.
Undanfarna mánuði hefur söngvarinn ítrekað verið sakaður um ofbeldi. Andlegt, líkamlegt og fyrst og fremst kynferðislegt. Síðast í febrúar lagði tónlistarframleiðandi fram kæru þar sem hann sakaði Diddy um að hafa þvingað sig til að eiga samræði við vændiskonur.
Fyrrverandi kærasta Diddy, Cassie, lagði fram kæru í nóvember en úr henni var greitt með dómsátt þar sem Diddy féllst á að greiða ótilgreindar miskabætur án þess að gangast við sök.
Það voru fleiri sem kærðu rapparann í nóvember, fyrrum sálfræðinemi við háskólann í Syracuse sakar Diddy um byrlun og kynferðisbrot, en meint brot áttu sér stað árið 1991. Rapparinn hafi auk þess framið stafrænt kynferðisofbeldi með því að taka brot sín upp.
Enn ein kona segir Diddy hafa hópnauðgað sér fyrir tveimur áratugum síðan, eftir að hann hafi borið í hana fíkniefni og áfengi. Hún var aðeins 17 ára gömul.
Diddy hefur neitað sök í öllum málunum.
Framleiðandinn sem kærði Diddy, Lil Rod, segir í stefnu sinni að Diddy hafi falið hundruð eftirlitsmyndavéla á heimilum sínum. Harry Bretaprins er óvænt dreginn inn í málið í stefnunni en Lil Rod segir að að Diddy hafi áður verið þekktur fyrir að halda ógleymanlegar veislur, en í þessum veislum hafi verið mikið um mansal. Það hafi þótt eftirsóknarvert að styðja og tengjast þessum veisluhöldum enda fékk fólk þar aðgengi að stjörnum á borð við Bretaprinsinn, fræga íþróttamenn, listaelítuna, tónlistarfólk og fleiri stjörnur.
Diddy hefur áratugum saman haft orðspor fyrir að vera bæði hættulegur og valdamikill. Þeir sem hafa lifað og hrærst í rappheiminum hafa líklega heyrt alls konar sögur um meintan hrottaskap rapparans sem jafnvel hefur verið talinn eiga þátt í andláti Tupac.
Undanfarna daga hafa tengsl Diddy við margar stærstu stjörnur heimsins verið dregin fram í ljósið. Til dæmis hafi söngvarinn Usher búið hjá Diddy þegar hann var aðeins 14 ára gamall og sjálfur Justin Bieber hafi einu sinni varið tveimur sólarhringum með rapparanum að gera guð má vita hvað. Bieber var þá 15 ára.
„Ég fékk forsjá hans,“ sagði rapparinn um Bieber. „Þið vitið, hann er á samningi hjá Usher og ég var lögráðamaður Usher þegar hann gerði fyrstu plötuna sína. Ég gerði fyrstu plötu Usher. Ég er ekki með lagalega forsjá, en næstu 48 klukkustundirnar verður hann með mér og við ætlum að mála bæinn rauðann.“