Íslensk stúlka sem byrjaði að nota samskiptaforritið Discord í því skyni að læra teikningu lenti undir hælnum á glæpamönnum sem neyddu hana til að skaða sjálfa sig og brutu hana niður með skelfilegum hótunum, meðal annars um að sækja hana til Íslands, nauðga henni og hneppa hana í kynlífsánauð. Stúlkan var aðeins 13 ára gömul þegar martröðin hófst og losnaði hún ekki undan ægivaldi netþrjótanna fyrr en tveimur og hálfu ári síðar.
DV ræddi við stúlkuna og móður hennar fyrir páska og birtist viðtalið á skírdagsmorgun. Þar kemur fram að þó að móðir stúlkunnar hafi fylgst með símanotkun hennar hafi hún ekki séð hvað var í gangi.
„Það er svo merkilegt að við töldum okkur hafa netnotkunina hennar undir kontról. Ég var reglulega að fara yfir símann hennar en þetta fór samt framhjá mér,“ segir móðirin. Þarna ber að hafa í huga að á samskiptaforriti eins og Discord er ekkert opinbert efni eins og á samfélagsmiðlum. Allt efni er lokað inni á netþjónum (serverum). Stúlkan hafði þá netþjóna þar sem hún var inni á vafasömum spjallrásum ávallt lokaða þegar hún var ekki sjálf ein með símann sinn.
Móðirin álasar sér fyrir að hafa leyft dóttur sinni að fara inn á Discord en viðurkennir þó að hún hafi engan veginn getað séð fyrir afleiðingarnar: „Þetta eru stærstu mistök sem ég hef gert á ævinni. En hún fór þarna inn sem verðandi listamaður, til að læra að teikna. Mér var selt þetta þannig, þetta væru listamenn að deila efni hver með öðrum.“
Viðtalið við mæðgurnar má lesa með því að smella á tengilinn hér að neðan: