fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Pressan

Jennifer virtist vera hin fullkomna dóttir – Annað átti þó eftir að koma á daginn

Pressan
Föstudaginn 29. mars 2024 21:00

Jennifer Pam.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jennifer Pan virtist vera hin fullkomna dóttir í augum foreldra sinna sem áttu erfitt með að lýsa því hversu stoltir þeir voru af henni. Hún fékk A í öllu í skólanum, gerði alltaf það sem hún var beðin um að gera og varð góður námsárangur hennar til þess að hún fékk styrk til að hefja nám við Ryerson University í Toronto í Kanada.

Jennifer var af víetnömsku bergi brotin og fluttu foreldrar hennar, Huei Hann Pan og Bich Ha Pan, til Kanada undir lok áttunda áratugarins sem flóttamenn. Jennifer fæddist árið 1986 og bróðir hennar, Felix, árið 1989.

Lögðu hart að sér

Huei og Bich voru dugleg í vinnu og lögðu hart að sér til að koma undir sig fótunum í Kanada þar sem daglegt líf var talsvert frábrugðið því sem þau áttu að venjast í Víetnam.

Jennifer og Felix fengu það sem sumir myndu kalla strangt uppeldi. Þeim voru lagðar línurnar og alin upp þannig að þau myndu ná sem mestum árangri í lífinu. Jennifer mátti til að mynda ekki gera allt sem jafnaldrar hennar máttu gera. Hún fékk ekki að fara á böll í skólanum eða partý, 22 ára gömul hafði hún aldrei farið á skemmtistað, drukkið áfengi eða farið í frí með vinum. Þá þurfti hún að læra á píanó þó henni hundleiddist það og þurfti einnig að æfa listdans á skautum.

Jennifer sinnti þessu öllu og útskrifaðist að lokum frá háskólanum í Toronto og fékk virðulegt starf. Eða svo héldu foreldrar hennar að minnsta kosti. Síðar átti eftir að koma á daginn að allt var þetta haugalygi; Jennifer útskrifaðist ekki úr háskóla, hvað þá menntaskóla, og hafði hún falsað einkunnaspjöld sem sýndu glæstan námsárangur hennar. Hún átti meira að segja leynilegan kærasta í sjö ár, Daniel Wong, en foreldrar hennar voru mjög mótfallnir því að hún eignaðist kærasta svo ung.

Tug milljóna arfur

Jennifer og Daniel lögðu á ráðin um að myrða foreldra hennar svo þau gætu verið saman í friði og til að geta fengið arf sem nam tugum milljóna króna. Árið 2010 réðu þau leigumorðingja til að myrða Huei Hann og Bich Ha Pan.

Að kvöldi 8. nóvember 2010 tók Jennifer útidyrahurðina úr lás áður en hún fór upp í herbergið sitt. Þar hringdi hún í mann sem hún hafði komist í samband við, David Mylvaganam, og lét hann vita að leiðin væri greið.

Huei Hann Pan og Bich Ha Pan.

Ekki löngu síðar kom David að heimili Jennifer og foreldra hennar í félagi við tvo menn og gengu þeir inn um útidyrnar. Foreldrar Jennifer vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið þegar grímuklæddir mennirnir kröfðust þess að fá peninga og önnur verðmæti.

Jennifer þóttist einnig vera mjög hissa en vissi allan tímann hvað var í gangi. Öllum þremur var svo skipað að fara niður í kjallara þar sem Bich og Huei voru bæði skotin mörgum sinnum en Jennifer ekki. Bich er talin hafa látist samstundis en þótt ótrúlegt megi virðast komst Huei lífs af frá árásinni.

Jennifer hringdi sjálf á lögreglu sem var fljót á vettvang og taldi hún í fyrstu að um ránsmorð hefði verið að ræða. Grunsemdir fóru þó að vakna þar sem ræningjarnir skildu ýmis verðmæti eftir og þá vakti það athygli lögreglu að Jennifer hafi ekki verið skotin og henni tekist að hringja á lögreglu, þó hún hafi verið bundin á höndum að eigin sögn.

Lykilvitni í málinu gegn dóttur sinni

Huei komst til meðvitundar nokkrum dögum eftir árásina og var hann lykilvitni í málinu gegn dóttur sinni. Rifjaði hann upp að hann hefði séð Jennifer hvísla einhverju að einum árásarmannanna, líkt og hann væri vinur hennar, áður en þau hjónin voru skotin. Jennifer var handtekin tveimur vikum eftir ódæðið og játaði loks að hafa ráðið leigumorðingja til að verða foreldrum sínum að bana.

Nokkrir mánuðir liðu þar til kærastinn, Daniel Wong, var handtekinn ásamt leigumorðingjunum sem komu að málinu. Jennifer, Daniel og leigumorðingjarnir Eric Shawn Carty, Lenford Roy Crawford og David Mylvaganan fengu lífstíðarfangelsisdóm. Eric lést í fangelsi árið 2018 en Jennifer afplánar dóm sinn í Grand Valley-kvennafangelsinu í Ontario.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Leikkona lést þegar hún tók þátt í hreinsunarathöfn

Leikkona lést þegar hún tók þátt í hreinsunarathöfn
Pressan
Í gær

„Mamma var með kórónuna þegar ég fór í bað“ sagði konungurinn

„Mamma var með kórónuna þegar ég fór í bað“ sagði konungurinn
Pressan
Fyrir 2 dögum

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna
Pressan
Fyrir 2 dögum

Guinness í jákvæðum vanda – Neyðast til að takmarka sölu

Guinness í jákvæðum vanda – Neyðast til að takmarka sölu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“