Héraðsdómur Reykjaness kvað í morgun upp dóm í deilu fyrrverandi sambúðarfólks. Eftir að fólkið hafði komist að samkomulagi um skiptingu eigna sinna og skulda gerði konan kröfu um hlutdeild í söluandvirðis á notuðum bíl, Skoda Octavia, og málið endaði fyrir dómi.
Parið var í sambúð í sjö ár áður en slitnaði upp úr og eignuðust þau tvö börn. Við sambúðarslitin gerðu þau skriflegt samkomulag um skiptingu eigna og tekna. Þau áttu saman til helminga bíl og fasteign og voru bæði skráð fyrir lánum vegna þessara eigna. Fjárhagsleg samstaða var með þeim og samkomulag um að það þeirra sem hefði hærri tekjur myndi greiða hlutfallslega hærra af skuldum og til heimilisins. Var það maðurinn en hann starfaði sem flugmaður.
Eftir að slitnaði upp úr sambúðinni greiddi maðurinn einn af öllum veðskuldum. Hann seldi bílinn og tók söluandvirðið upp í þann kostnað sem hann hafði greitt.
Konan vildi ekki una þessu og krafðist þess að fá helminginn af söluandvirði bílsins. Bíllinn seldist á rétt rúmar tvær milljónir króna og stefndi konan manninum fyrir dóm til að greiða sér helminginn, þ.e. 1.050.774 krónur ásamt dráttarvöxtum.
Parið sleit sambúðinni í júlí 2021 og gerði samning um forsjá, lögheimili og meðlagsgreiðslur með börnunum. Konan höfðaði málið vegna sölu á bílnum ekki fyrr en í september 2023. Maðurinn byggði kröfu sína á því að vera sýkn af kröfum hennar meðal annars á því að hún hefði sýnt tómlæti hvað þessa kröfu varðar. Hún hafi vitað um söluna á bílnum í júní 2021 en ekki sent kröfu í tölvupósti um að fá helmingshlut í söluandvirði bílsins fyrr en níu mánuðum síðar.
Dómurinn hafnaði kröfu konunnar mest á eim forsendum að maðurinn ætti mun hærri gagnkröfu á hendur henni fyrir hlutdeild hennar í afborgun sameiginlegra veðlána sem hann hafði einn greitt af eftir sambúðartímann.
Hins vegar var konan ekki dæmd til að greiða manninum málskostnað og ber hvor aðili sinn kostnað af málinu.
Lögmaður konunnar var Ágúst Ólafsson lögmaður og lögmaður mannsins Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður.
Dóminn má lesa hér.