fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Íslensk stúlka í klóm erlendra netníðinga – Myndbönd af henni alblóðugri til sýnis á spjallrás

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 28. mars 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslensk stúlka sem byrjaði að nota samskiptaforritið Discord í því skyni að læra teikningu lenti undir hælnum á glæpamönnum sem neyddu hana til að skaða sjálfa sig og brutu hana niður með skelfilegum hótunum, meðal annars um að sækja hana til Íslands, nauðga henni og hneppa hana í kynlífsánauð. Stúlkan var aðeins 13 ára gömul þegar martröðin hófst og losnaði hún ekki undan ægivaldi netþrjótanna fyrr en tveimur og hálfu ári síðar.

Vakin er athygli á því að lýsingar í þessari grein geta vakið óhug.

Stúlkan, sem ekki verður nafngreind hér þar sem málið er augljóslega afar viðkvæmt, rakti DV sögu sína ásamt móður sinni. Fyrir skömmu greindi DV frá afhjúpun erlendra fjölmiðla á framferði glæpahópa sem lokka börn til sín í gegnum samskiptaforrit á borð við Discord og Telegram, og leikjasvæða á borð við Roblox. Glæpamennirnir ná andlegu valdi á börnunum og kúga þau til að skaða sjálf sig og niðurlægja sig með hræðilegum hætti, eða til dæmis misþyrma gæludýrum sínum eða brjóta kynferðislega gegn systkinum sínum. Í greininni kom fram að bandaríska alríkislögreglan FBI er að rannsaka þessa glæpi og hefur varað við hópunum.

Svo virðist sem ekkert annað vaki fyrir hópunum en að niðurlægja og kvelja börnin, ekkert hefur komið fram sem bendir til dæmis til fjárhagslegs ávinnings af glæpunum.

Sjá nánar hér.

Ofbeldisklám og dýraníð

Talið er að börnin sem hafa lent í klóm glæpa af þessu tagi skipti þúsundum en DV var ókunnugt um þar til fyrir nokkrum dögum að íslenskt barn væri á meðal þeirra. Stúlkan segir að allt hafi þetta byrjað með saklausum og raunar bara ánægjulegum hætti. Með leyfi móður sinnar skráði hún sig inn á Discord í því skyni að þroska hæfileika sína í teikningu:

„Ég var í einni listagrúppu þar sem var verið að kenna teikningu og þar var líka hægt að sýna öðrum þar sem maður var að teikna. Ég fór líka í aðrar grúppur en svo var einhver sem sagði mér að fara inn í grúppu sem hét „Flar‘s Basement“. Við vorum þarna fjögur inni og svo hittumst við líka í gegnum Roblox þar sem við vorum að spila alls konar leiki.“

Flar‘s Basement er kennt við stofnandann, mann sem kallar sig Flar, segist heita réttu nafni Robin, sagðist vera 25 ára þegar þetta allt saman hófst, og vera frá Serbíu. Í þessum hópi, sem er í raun lokuð spjallrás (eins og aðrir hópar á Discord) en ekki hópaspjall eða hópur eins og finna má á eiginlegum samfélagsvefjum, voru stundum birt óhugnanleg myndbönd. „Það var mikið verið að senda inn klám, til dæmis ofbeldisklám. Eitt myndbandið sat fast í höfðinu á mér en þar voru einhverjir afhöfðaðir og höfðunum kastað í vegg. Þarna var líka mikið dýraofbeldi. Þessi grúppa var tekin niður en kom upp síðan aftur eftir nokkra daga, og þannig gekk það, það var verið að taka hana niður og hún kom alltaf aftur. Hann breytti nafninu á grúppunni síðan í „bsmnt“.“

Stúlkan segir að fyrir utan þennan Flar hafi verið 17-18 ára maður og stúlka sem hún vissi ekki aldurinn á í grúppunni, ásamt fullt af öðru fólki. Þrátt fyrir þetta óhugnanlega myndefni var fyrsti mánuðurinn í þessum félagsskap í raun frekar ánægjulegur. Ofbeldið gegn stúlkunni hófst ekki strax.

Þurfti að senda nektarmyndir og skera sjálfa sig

Stúlkan er hikandi í orðavali þegar hún lýsir því hvernig kúganir og hótanir hófust. Hún þarf líka að gera hlé á máli sínu í stutta stund því það er erfitt fyrir hana að opna sig um þessa hræðilegu reynslu. En henni finnst samt mikilvægt að gera það og draga ekkert undan, ef það mætti verða til þess að koma í veg fyrir að önnur börn lendi í klóm netníðinga:

„Við höfðum bara verið að spila og hafa gaman í nokkrar vikur en svo fór Flar að vera … strangur… Hann sagði að ég þyrfti líka að gera eitthvað fyrir hann.“ Á stúlkan þá við að þessi Flar teldi hana standa í þakkarskuld við sig af því hann hefði veitt henni félagsskap og komið henni í kynni við önnur ungmenni.

„Það er erfitt að tala um þetta … hann sagði mér að ég þyrfti að senda honum myndir.“ Þurfti hún að senda honum nektarmyndir og kynferðislegar myndir.

„Ég hélt að þetta væri það sem vinskapur snerist um. Ég hafði aldrei átt almennilega vini, allt mitt líf hafði ég verið lögð í einelti, verið troðið ofan í ruslatunnu, klippt á mér hárið, ég var líka í miklu þunglyndi og með anorexíu.“

Stúlkan segir að aðrir menn sem tengdust þessum Flar hafi einnig níðst á sér. „Ég var búin að vera að gera hluti fyrir hann í einhvern tíma þegar hann leyfði öðrum mönnum að nota mig líka, ég átti líka að senda þeim myndir. Ég átti líka að krota mikið á líkamann minn og skera mig. Síðan voru hótanir um að ef ég gerði ekki það sem þau segðu mér að gera þá myndu þau„swatta“ heimilið mitt.“ – Það sem stúlkan á við hér er sérsveitarútkall. Oft getur innhringd fullyrðing um vopnaburð og ógnandi tilburði aðila orðið til að sérsveit sé send á vettvang. Dæmi er um að það hafi verið gert við stúlku sem kúguð var hópi af þessu tagi (í Bandaríkjunum).

Stúlkan segist sjálf hafa hringt í lögregluna þegar ofbeldið hafði staðið í einhvern tíma, en þrátt fyrir það þá hélt ofbeldið áfram.

„Mér var líka sagt að gera vonda hluti við dýrin mín. Ég átti til dæmis að snúa páfagaukinn minn úr hálsliðnum. Ég neitaði því. En þá þurfti ég að skera mig í staðinn til að sleppa við það. Þau sögðu mér líka að stinga halanum á eðlunni minni inn í mig.“

Segir hún að myndbönd af sér alblóðugri hafi verið til sýnis á spjallrás inni á Discord. Hún hafi hins vegar alltaf neitað að misþyrma dýrunum en verið til í að skaða sjálfa sig í staðinn.

„Ég sá oft þarna sömu myndina, af stelpu með höfuðið ofan í klósetti og búið að skrifa á klósettið með blóði hennar (eða kannski tússi, ég veit það ekki). Þetta er það sem kallað er bloodsign og ég var stundum látin gera svona, látin skera mig og skrifa með blóðinu. Svo var það þannig að á tímabili átti ég auðvelt með að fá miklar blóðnasir ef ég þrýsti á nasirnar og þau sögðu mér að gera það til að fá mikið blóð. Einu sinni sá ég stúlku setja hníf inn í sig og síðan sleikja blaðið.“ Hún segir líka frá því að einni stúlku hafi verið skipað að snerta systkini sín kynferðislega.

Þetta er ein af myndunum sem stúlkan var neydd til að birta á spjallrásinni. Skrifað með hennar eigin blóði.

Aðspurðar segja stúlkan og móðir hennar að hér virðist allt hafa snúist um útrás fyrir sadískar og afbrigðilegar hvatir glæpamannanna. Möguleiki væri á því að nektarmyndir af stúlkum sem eru misnotaðar með þessum hætti séu seldar en ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að svo sé. „Flar sagði líka við mig að honum væri alveg drullusama um mig, hann vildi bara fá þessar myndir og hafa gaman.“

Fyrir liggur að stúlkunni tókst að halda þessu öllu leyndu fyrir foreldrum sínum í tvö og hálft ár. Blaðamaður spyr hana hvort henni hafi tekist að leyna vanlíðan sinni. Þeirri spurningu svarar móðir hennar ákveðið: : „Það sáu allir að það var eitthvað mikið að.“

Brotnaði saman á skólasalerninu

Stúlkan sagði námsráðgjafa í skólanum sínum frá öllu saman síðastliðið haust í kjölfar þess að hún brotnaði saman inni á salerni, buguð undan stöðugum hótunum, og fannst grátandi þar.

„Þau voru að segja mér að þau myndi senda myndirnar af mér í skólann,  á fjölskylduna mína, alla vini mína. Síðan myndu þau koma til Íslands og myrða alla ástvini mína. Þau voru líka öll offline og þá var eins og þau væru á leiðinni. Flar hótaði því að koma hingað, draga mig inn í hvítan sendibíl, nauðga mér og gera mig síðan að kynlífsþræl. Hann sýndi mér meira að segja flugmiðann hingað.ׅ“

Mæðgurnar draga raunar í efa að einhver alvara hafi verið að baki hótunum og auðvelt sé að birta falsaða mynd af farmiða. En fyrir stúlkunni var hættan raunveruleg. En hvers vegna var hún ekki búin að segja móður sinni frá þessu áður?

„Ég var einfaldlega of hrædd til þess.“

Móðirin fylgdist með símanotkuninni – en það dugði ekki til

„Það er svo merkilegt að við töldum okkur hafa netnotkunina hennar undir kontról. Ég var reglulega að fara yfir símann hennar en þetta fór samt framhjá mér,“ segir móðirin. Þarna ber að hafa í huga að á samskiptaforriti eins og Discord er ekkert opinbert efni eins og á samfélagsmiðlum. Allt efni er lokað inni á netþjónum (serverum). Stúlkan hafði þá netþjóna þar sem hún var inni á vafasömum spjallrásum ávallt lokaða þegar hún var ekki sjálf ein með símann sinn.

Móðirin álasar sér fyrir að hafa leyft dóttur sinni að fara inn á Discord en viðurkennir þó að hún hafi engan veginn getað séð fyrir afleiðingarnar: „Þetta eru stærstu mistök sem ég hef gert á ævinni. En hún fór þarna inn sem verðandi listamaður, til að læra að teikna. Mér var selt þetta þannig, þetta væru listamenn að deila efni hver með öðrum.“

Þó að stúlkan þorði ekki að segja foreldrum sínum frá leyndarmálunum hræðilegu þá trúði hún dagbókinni sinni fyrir þeim. Hún hélt nefnilega í langan tíma dagbók, handskrifaða stílabók. Þar skrifaði hún upplýsingar um fólkið sem var að kúga hana, texta sem hún vildi að aðrir gætu séð ef hún yrði drepin eða numin á brott, því hún óttaðist raunverulega að það myndi gerast. Einnig tjáir hún sig um vanlíðan sína, til dæmis eru færslur frá því í maí 2023 þar sem hún sagðist vera að gefast upp. Einnig vitna færslurnar um það að á tímabilum náði hún að loka á ófögnuðinn en ávallt náðu þrjótarnir tökum á henni aftur, enda var áreitið stanslaust og smitaðist yfir í aðra samskiptamiðla, til dæmis SnapChat og Instagram. Svo lengi sem hún var nettengd var hún ekki látin í friði.

Hún segist hafa sofið mjög illa og um tíma farið að sjá ofsjónir þar sem svefnleysi og stöðugur ótti við yfirvofandi ógn gætu hafa verið orsakavaldarnir. Í dag segist hún fá kvíðakast, bresta í grát og hlaupa burtu ef hún sér fullorðna erlenda karlmenn á förnum vegi. Það sama gerist ef hún sér hvíta sendibíla enda var henni hótað að hún yrði numin á brott og henni misþyrmt í slíku farartæki.

Laus undan ógninni

Stúlkan hefur skorið á öll tengsl við samskiptaforritið Discord og leikjarásina Roblox. Hún notar Snapchat, Facebook og Instagram „Ef einhver sem ég þekki ekki addar mér þá blokka ég þau alltaf undir eins.“  Aðspurð játar hún að lífið sé miklu betra í dag þó að hún sé ekki búin að jafna sig eftir tveggja og hálfs árs martröð af andlegu ofbeldi og ógnunum.

„Hún fékk aðstoð í Barnahúsi en af því hún er á einhverfurófinu og sýnir ekki dæmigerð áfallaeinkenni þá var hún úskrifuð þaðan. Við fengum líka sálfræðing í gegnum heilsugæsluna og það gekk vel,“ segir móðirin og bætir við brosandi: „Svo erum við opnar hvor við aðra og tölum mikið saman.“ Segir hún að náin og opin samskipti þeirra séu kannski mikilvægasta leiðin fyrir bata dóttur hennar.

Rannsókn málsins er nú í höndum lögregluyfirvalda hér á landi. Sími stúlkunnar var afritaður en íslenska lögreglan leitar leiða til að koma á samskiptum við FBI, bandarísku alríkislögregluna, sem rannsakar glæpi af þessu tagi af kappi. Vitað er til að einn af þeim glæpamönnum sem stúlkan þekkir til frá veru sinni á Discord hefur verið handtekinn í Bandaríkjunum, en það er þó ekki einn þeirra manna sem níddust á henni.

„Málið er mjög flókið og seinunnið. En síðan er opin upplýsingagátt til FBI sem við getum nýtt okkar og við munum setjast niður eitt kvöldið og skrifa þeim,“ segir móðirin.

„Íslensku lögreglumennirnir sem við höfum talað við um þetta segjast aldrei hafa séð svona áður. Þeir þekkja auðvitað til netglæpa en yfirleitt er einhver fjárkúgun í spilinu. Það er ekki þarna.“

En hvað er mikilvægast til að koma í veg fyrir að börn verði glæpahópum af þessu tagi að bráð?

„Banna samskiptaforritin. Discord og Telegram. Foreldrar ættu að banna börnum sínum að nota lokuð samskiptaforrit.“

Stúlkunni er mikið í mun að önnur börn lendi ekki í því sama og hún. Hún á tvær yngri systur og segir móðirin að hún sé byrjuð að fylgjast með síma- og netnotkun þeirra. Allur er varinn góður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Rússnesk skip og kafbátar horfnir úr sýrlenskri flotastöð

Rússnesk skip og kafbátar horfnir úr sýrlenskri flotastöð
Fréttir
Í gær

Nettó og Bónus í jólabókaverðstríði — mikill verðmunur á spilum, bókum og Legó

Nettó og Bónus í jólabókaverðstríði — mikill verðmunur á spilum, bókum og Legó
Fréttir
Í gær

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir