Þau hjálpa einnig einstaklingum sem á þurfa að halda, án endurgjalds, að losna við draugagang og segja það oftast auðvelt þar sem draugar séu venjulega meinlausir. Hins vegar hafa komið upp tilfelli segja þau, þar sem draugar hafa beitt fólk ofbeldi og þá þurfa þau að grípa inn í.
Katrín og Stefán eru gestir vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Þau fara um víðan völl og ræða um það sem er fyrir handan, hvernig draugagangur lýsir sér, hvernig er hægt að losna við drauga og þeirra fyrstu reynslu að sjá eitthvað að handan. Þau fara einnig yfir staði á Íslandi þar sem reimleikar eru og eftirminnilegustu upplifanir þeirra, eins og þegar þau náðu röddum á upptöku í Hvítárnesskála eða þegar Stefán vaknaði við að sjá huggulegan prest standa yfir sér, sem dó fyrir mörgum árum.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify eða hlaðvarpsþjónustu Google.
„Draugagangur er í rauninni orka sem við skiljum eftir eða við erum. Við erum líkami og svo erum við sál. Það er bara þannig, punktur. Og þessi sál getur aftengst líkamanum þegar við deyjum og stundum verður hún eftir. Og stundum fer hún þangað sem hún á að fara,“ segir Stefán.
Katrín tekur undir. „Það er svona grundvallarhugmyndafræðin, það veit enginn hvað gerist þegar við deyjum. Og ég held að fólk sem er í okkar fagi sé í rauninni bara að reyna að svara spurningunni: „Hvað gerist?““
Þau segja draugagang aðallega vera hljóð, raddir og snertingu. „En ekki endilega einhver sem stendur á bak við hurðina hjá þér,“ segir Stefán.
Stefán tekur það fram að venjulega eiga skrýtin hljóð sér eðlilegar skýringar. „Það er ekki allt draugagangur, svo langt frá því. Yfirleitt eiga hlutir sér mjög eðlilegar skýringar. Líka hjá okkur, við erum með fjögur börn, maður heyrir stundum hljóð sem eiga ekki að vera en við eigum fjögur börn, einhver gæti verið að fara á klósettið eða eitthvað.“
„Oftast þegar fólk hefur samband við okkur þá er það eiginlega búið að útiloka allt. Það er eiginlega pínu búið að missa kúlið,“ segir Katrín.
Aðspurð hvenær Katrín fann fyrir því að hún væri með skilningarvitin opin, eins og það er gjarnan kallað, segist hún hafa verið mjög ung. Foreldrar hennar áttuðu sig á því á undan henni.
„Því ég var bara að sjá og tala og benda. Þau hafa alveg viðurkennt að á tímabili hafi þau verið [smá skelkuð] en þetta kemur líka frá mömmu minni, hún var svona og er svona í dag. Þannig ég man eftir þessu frá unga aldri, þá var ég að sjá liti, ljós og fólk sem var ekki á staðnum og ég heyrði í fólki. En ég held að munurinn hjá mér og kannski öðrum er það að ég átti mömmu sem skildi og vissi hvað var í gangi, vissi hvað ég var að upplifa þannig ég fékk rosalega mikinn skilning strax sem barn og varð þess vegna ekkert hrædd, sem skiptir öllu máli, að vera ekki hræddur, og ég gat alltaf talað um það sem ég var að sjá.“
„Ég hef ekki upplifað mikla fordóma og það er eiginlega ótrúlegt,“ segir Katrín.
Aðspurð hvort það sé vegna þess að Íslendingar séu svona opnir segir hún: „Ég held kannski að við berum bara virðingu fyrir hvort öðru. Auðvitað er örugglega eitthvað fólk sem hugsar: „Ókei, þessi er ekki alveg í lagi.“ En slepptu því þá að fylgja mér, farðu bara eitthvert annað. En líka í grunnskóla, allar vinkonur mínar þær trúðu mér, þær vissu þetta.“
Katrín og Stefán útskýra algengustu vandamálin sem þau kljást við þegar þau hjálpa fólki að kljást við draugagang.
„Ég myndi segja hræðsla. Það er bara númer eitt og það er það sem ýtir undir meiri draugagang, það er þessi hræðsla. Oft er nóg að segja bara upphátt, hátt og skýrt, með innlifun: „Farðu út, láttu mig í friði, hættu þessu.“ Við segjum stundum að draugar séu eins og lítil börn, þú þarft að endurtaka þig. Stundum þarftu að hækka aðeins róminn og vera ákveðinn,“ segir Stefán.
Foreldrar hafa haft samband við þau í leit að hjálp því barnið þeirra er að sjá eitthvað. Það er gjarnan talað um að börn séu næmari fyrir draugagangi og taka Katrín og Stefán undir það.
„Það er talað um að börn séu mun næmari en við alveg til tólf ára aldurs,“ segir Katrín.
„Við erum með þetta sjötta skilningarvit, eða þriðja augað, við fæðumst öll með þetta og erum með þetta opið til tólf ára aldurs og það er þá sem við setjum upp varnir. Við byrjum að lyfta brjóstkassanum og halda maganum inni, erum meðvituð um það sem fólki finnst um okkur og skoðanir annarra. Þrettán til fjórtán ára, þetta er mjög viðkvæmur aldur og það er þá sem okkar eðlilegu varnir koma upp,“ segir Stefán.
Katrín segir að öfugt við það sem gerist venjulega hjá krökkum þá hafi hún þurft að læra að setja upp veggi. „Þú getur heldur ekki farið í gegnum lífið með öll skilningarvitin opin, ég væri bara dauðþreytt eftir daginn. Ég væri að upplifa alla orku í kringum mig, ég gæti fundið nákvæmlega hvernig öllum líður, pirring hjá öllum og séð hluti, þetta væri bara allt of mikið.“
Þau taka það skýrt fram að þau rukka fólk ekki fyrir aðstoð við draugagang.
„Við erum ekki þannig að við rukkum fólk og segjum: Við ætlum að taka draugana heima hjá þér. Það er ekki þannig,“ segir Katrín.
„Því hver erum við að segja að við getum labbað inn, tekið ósýnilegu draugana og rukkað þig svo fyrir það. Það bara meikar ekki sens,“ segir Stefán.
Horfðu á þáttinn með Katrínu og Stefáni í spilaranum hér að ofan. Þú getur einnig hlustað á Spotify.
Fylgdu Draugasögur á Instagram og hlustaðu á hlaðvarpsþætti þeirra á Spotify. Einnig er hægt að skrá sig í áskrift hjá þeim fyrir meira efni.
Katrín og Stefán eru einnig með þættina Sannar íslenskar draugasögur (smelltu hér fyrir áskrift eða hlustaðu á Spotify) og Mystík (smelltu hér fyrir áskrift eða hlustaðu á Spotify).