Muniz tekur þátt í raunveruleikaáttunum I‘m a Celebrity…Get Me Out of Here! og í einu atriði barst talið að þeim peningum sem Muniz hefur unnið sér inn á ferli sínum.
Muniz var aðeins 15 ára þegar hann byrjaði í Malcolm in the Middle og áður en yfir lauk fékk hann sem nemur 150 þúsund dollurum á hvern þátt. Alls voru gerðir 150 þættir og fékk Muniz því vel í aðra hönd fyrir þættina auk annarra verkefna sem hann tók að sér.
Í þáttunum barst talið að áreitinu sem fylgir því að vera þekktur og þeirri hörðu gagnrýni sem leikarar fá stundum á sig. Muniz sagðist áður fyrr hafa bitið frá sér og rifjaði svo upp samtal sem hann átti við einn ungan mann á netinu.
„Það var krakki sem skrifaði að ég væri hræðilegur leikari. Ég sagðist alveg geta tekið undir það en sagði svo við hann að ég hefði eitt sem væri ekki svo hræðilegt. Að geta sest í helgan stein 19 ára með 40 milljónir dollara á bankareikningnum,“ sagði Muniz en það er upphæð sem nemur 5,5 milljörðum króna.
Þegar hann var spurður hvort hann væri búinn að afla sér nægjanlegra tekna til að geta sest alfarið í helgan stein stóð ekki á svarinu. „Já, 100%.“
Muniz er í dag 38 ára og hefur ekki tekið að sér mörg stór hlutverk á undanförnum árum, enda ekki beint þurft þess. Hann hefur komið fram í gestahlutverkum hér og þar og minni hlutverk í þáttum og bíómyndum.
Hann er í dag búsettur í Arizona ásamt eiginkonu og tveggja ára barni og einbeitir sér einkum að kappaksturskeppnum þessa dagana.