Stuðningsmenn Íslands fengu ekki að fara af leikvellinum í Wroclaw í Póllandi eftir leik þegar Ísland hafði tapað gegn Úkraínu í kvöld.
Áhrifavaldurinn, Reynir Bergmann segir frá þessu á Instagram síðu sinni í kvöld. Hann var einn af 500 stuðningsmönnum Íslands á vellinum.
„Þetta er vel þreytt, við erum lokuð inn í búri eftir leik í 30 mínútur,“ sagði Reynir á Instagram eftir leik.
Þetta var gert til að koma í veg fyrir að stuðningsmenn liðanna færu af vellinum á sama tíma en gríðarleg gæsla var á vellinum.
Þetta er vel þekkt á stærri leikvöngum út í heimi að stuðningsmenn útiliðsins séu látnir bíða á vellinum eftir leik.
Úkraína fer á Evrópumótið í sumar en Ísland þarf að bíða eftir næsta tækifæri til að komast á stórmót á nýjan leik.