fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Ragnhildur er með mikilvæg skilaboð – Þjáist þú af ofurhetjuheilkenninu?

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 26. mars 2024 13:10

Ragga Nagli Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, vekur athygli á kulnun og segir að kulnun sé ekki bara tengd langdregnum fundum og erfiðum samskiptum við vinnufélaga, heldur getur fólk upplifað kulnun í hlutverkum sem það elskar.

Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari. Pistlar hennar um heilsu á mannamáli hafa slegið í gegn um árabil.

„Fólk áttar sig oft ekki á því að við kulnun er ekki bara tengd Excel skjalinu í vinnunni, langdregnum fundum, erfiðum samskiptum við vinnufélaga og of mörgum verkefnum. Við getum líka upplifað kulnun í öðrum hlutverkum í lífinu, jafnvel þó við elskum þessi hlutverk,“ segir Ragnhildur og útskýrir nánar.

„Sem foreldri þar sem þú missir kontrólið og kúlið bara ef barnið neitar að tannbursta sig. Að hugsa um aldraða foreldra. Í ástarsamböndum ef það er spenna í samskiptum,“ segir hún og nefnir fleiri dæmi í pistlinum sem má lesa í heild sinni hér að neðan.

„Fólk upplifir svefnleysi þar sem það veltir sér í bælinu andvaka yfir samskiptum dagsins: “Af hverju sagði ég þetta?” “Af hverju stóð ég ekki betur með mér?” og “Af hverju lét ég vaða yfir mig” Keyra reglulega upp streitukerfið í kortisól marineringu og adrenalínbaði. […]

Slík kulnun er oft afleiðing af Ofurhetjuheilkenninu þar sem við biðjum aldrei um hjálp eða útvistum verkefnum. Viljum ekki ónáða fólk. Ekki vera byrði á neinum. Aldrei vera með vesen. Erum með kjarnaviðhorf til sjálfsins sem er að við eigum að redda öllu sjálf.

Fólk í kulnun upplifir oft depurð barmafull af vonleysi yfir að hlutirnir breytist nokkurn tíma. Allar þessar tilfinningar eru vísbending um að setja betri mörk til að vernda orkuna þína.“

Mynd/Pexels

Mismunandi mörk

Ragnhildur segir að mörk séu alls konar.

„Tilfinningaleg mörk snúa að hversu mikla inneign þú átt til að taka á þig tilfinningalegar byrðir annarra. Að ræða ekki mál sem vekja upp sterkar tilfinningar.

Hugræn mörk snúa að þínum eigin skoðunum og viðhorfum og að gefa þér fullt leyfi til að vera á öndverðum meiði við aðra. Að sætta sig við að vera stundum ósammála náunganum.

Mörk í samskiptum eru hvernig aðrir mega tala við þig, hvað má segja við þig og hvað ekki. Hvernig þú talar við aðra og hvernig þú talar við sjálfa(n) þig.

Tímamörk snúa að hversu miklum tíma þú eyðir með öðrum. Hvernig þú vilt að aðrir virði þinn tíma hvað varðar að koma seint eða biðja þig um greiða.

Mörk í samböndum snúa að hvernig fólk kemur fram við okkur, hvernig framkomu við viljum og hvers þau geta vænst af okkur.

Mörk eru líka hegðun eins og:

  • Svara ekki símanum þegar þú getur ekki talað.
  • Svara tölvupósti þegar þú hefur tíma.
  • Lána ekki pening þegar þú vilt það ekki.
  • Deila ekki persónulegum hlutum þó aðrir geri það.
  • Hlæja ekki að því sem þér finnst óviðeigandi.“

Settu sjálfsrækt í forgang

Ragnhildur hvetur fólk til að setja sjálfsrækt í forgang.

„Rétt eins og í flugvélinni þarftu að setja súrefnisgrímuna á þig áður en þú getur aðstoðað aðra. Ef þín súrefnisgríma lafir um hálsinn á þér þá ert þú í engu standi til að vera til staðar fyrir nokkurn annan.

Það er ekki eigingirni að taka kríulúr eftir vinnu. Það er ekki tímasóun að slúðra í klukkutíma í símtólið við Siggu vinkonu. Það er ekki andfélagslegt að setja á sig heyrnartól og lita í litabók inni í herbergi. Það er ekki eigingirni að fara í freyðibað með Enyu að kyrja úr hátalaranum.

Sjálfsrækt er að segja stundum NEI við verkefnum.

Að forgangsraða sjálfum sér er ekki eigingirni. Þvert á móti er það í almannaþágu.

Það er djúp nauðsyn að sinna athöfnum sem gefa þér orku og næra líkama og sál til að verða betri manneskja og geta þannig sinnt fólkinu þínu, vinnunni og lífinu af þeirri alúð sem það krefst.

Það er djúp nauðsyn til að halda geðheilsunni glimrandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 12 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?