Í kvöld er komið að leik Íslands og Úkraínu og er sæti á EM í sumar undir. Albert Guðmundsson skorað þrennu gegn Ísrael sem fór langt með að tryggja íslenska liðinu á þetta stig og vonast er eftir annarri góðri frammistöðu frá honum í kvöld.
Leikurinn var til umræðu í hlaðvarpi Íþróttavikunnar og hvar Albert myndi spila. Hann var fyrir aftan Orra Stein Óskarsson í fremstu línu gegn Ísrael.
„Mér finnst líklegra að hann hafi Albert sem falska níu heldur en að setja Andra Lucas inn fyrir Orra. Mér finnst líklegra að hann fórni Orra fyrir einhverskonar kerfi frekar en að taka hann út til að setja inn aðra níu ef svo má segja,“ sagði Helgi í þættinum.
Hörður Snævar Jónsson spyr sig hvort ekki þurfi hreinræktaða níu fram á við upp á hæðina að gera.
„Maður hugsar aðallega út í ef við þurfum að sparka langt, hvort við þurfum ekki hæðina sem Andri Lucas eða Orri eru með,“ sagði hann.