Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Wroclaw
Serhiy Rebrov, þjálfari úkraínska landsliðsins, býst við erfiðum leik gegn Íslandi á morgun. Á blaðamannafundi í dag var hann spurður út í styrkleika íslenska liðsins.
„Þeir eru með góða leikmenn en þeir eru fyrst og fremst lið. Þeir vita hvernig á að nota þá styrkleika sem þeir hafa,“ svaraði Rebrov.
„Ég trúi samt á mína leikmenn. Við þurfum að nota þá styrkleika sem við höfum.“
Leikur Íslands og Úkraínu hefst klukkan 19:45 annað kvöld en um er að ræða úrslitaleik um sæti á EM í sumar. Ísland kom sér í leikinn með 4-1 sigri á Ísrael á fimmtudag.