fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Skúrkur á skilorði sparkaði í ólétta konu og beit svo mömmu hennar – Niðurstaða dómara vekur upp spurningar

Ritstjórn DV
Mánudaginn 25. mars 2024 12:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður á fertugsaldri var í síðustu viku dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjavíkur, þrátt fyrir að hafa verið að skilorði þegar brotin áttu sér stað. Hann var sakfelldur fyrir að hafa ráðist annars vegar á þungaða konu og hins vegar á móður hennar. Báðar konurnar hluti beinbrot af atlögunni. 

Árásin átti sér stað í desember árið 2021 á bílastæði og koma nokkuð margir þar við sögu, enda var töluvert uppnám á svæðinu. Forsagan var sú að félagi ákærða hafði um nóttina slitið sambúð eftir að hann komst að því að sambúðarkonan hafði verið honum ótrú. Félaginn rauk þá grátandi heim til ákærða. Ákváðu þeir svo að fara að heimili sambýliskonunnar og sækja þar bíl sem félaginn átti en hafði leyft sambýliskonu sinni að hafa til umráða.

Tvær systur félagans koma þá til sögu. Sú fyrri hafði heyrt af sambandsslitunum og sá fyrir sér að bróðir hennar væri í engu standi til að mæta á heimili móður þeirra þennan dag, en móðirin átti afmæli. Hún hringdi því í systur sína og bað hana að ræða við bróður þeirra og fá hann ofan af því að eyðileggja afmælið.

Seinni systirin hélt því á vettvang og hafði með sér dóttur sína, sem var gengin sex vikur á leið.  Fram kemur í málinu að dótturinni og ákærða hafi ekki samið vel og áður komið til átaka þeirra á milli.

Þegar mæðgurnar mættu á vettvang var svo allt vitlaust. Þær ætluðu að koma í veg fyrir að félaginn fengi bílinn og reyndu bæði að setjast upp í bílinn og ná til sín bíllyklum. Fór það á endanum svo að ákærði var kominn með bíllykilinn og dóttirin reyndi að ná þeim. Ákærði greip þá til þess að rífa í hár hennar, hrinti henni og sló hana. Ekki taldi dómari í málinu ljóst nákvæmlega hvernig þessi átök hafi farið fram en þegar dóttirin leitaði á bráðamóttöku þá var hún fingurbrotin,  mjög aum við herðablað og viðbein. Sjálf taldi dóttirin að hún hafi í átökunum slitið liðband líka.

Móðirin reyndi að kæla aðstæður og steig út úr bifreiðinni til að reyna að fá ákærða til að hætta. Hann brást við með því að kýla hana í andlitið svo að gleraugun hennar flugu af henni. Þegar hún beygði sig eftir gleraugunum kom ákærði aftan að henni og lyfti henni á hálsinum frá jörðu. Hann sleppti henni ekki fyrr en hún var við það að missa meðvitund. Hún reyndi þá að ná lyklunum af honum en ákærði beit hana þá svo fast í fingur að tennur fóru bæði í gegnum nögl og húð. Eftir árásina var móðirin með bólgu í andliti, mikla vöðvabólgu, brotið rifbein og mikil eymsli.

Ákærði neitaði sök í málinu og sagðist aðeins hafa verið að verja sig eftir að mæðgurnar hafi ráðist á hann. Ekki taldi dómari það sennilegt enda ljóst að aflsmunur á milli hans og mæðgnanna væri töluverður auk þess sem að móðirin hafi að sögn vitna aðeins reynt að stilla til friðar.

Fingurbrotið undanskilið út af ákæru

Var ákærði kærður fyrir stórfellda líkamsárás gagnvart báðum  mæðgunum. Það er venjan þegar beinbrot hefur hlotist af árás, enda almennt talið að slíkt gerist í alvarlegum árásum. Það vekur því eftirtekt í máli þessu að dómari neitar að sakfella fyrir stórfellda árás gagnvart dótturinni þar sem hann taldi ekki ljóst nákvæmlega hvenær í átökunum fingur hennar brotnaði. Sjálf taldi dóttirin að það hafi gerst þegar ákærði hrinti henni á grindverk en dómari tók fram að þar sem hrindingin á grindverkið var ekki tiltekin sérstaklega í ákæru væri ekki hægt kenna ákærða um beinbrotið gegn eindreginni neitun hans. Það jafnvel þó að ljóst væri að til átaka hafi komið, að beinbrotið hafi verið afleiðing af þeim átökum, vitni hafi séð ákærða hrinda dótturinni á grindverk, og að atvik hafi átt sér stað nokkuð hratt og töluvert uppnám verið á vettvangi.

Í ákæru var ákærði sakaður orðrétt um að hafa: rifið í hár hennar og dregið hana út úr bifreiðinni Y, sparkað í kvið hennar og bak þar sem hún lá á jörðinni, bitið hana í hægri vísifingur og sparkað í bak hennar svo hún kastaðist harkalega á bifreiðina, allt með þeim afleiðingum….“

Skilorð eftir skilorð eftir skilorð

Annað sem vekur athygli við niðurstöðu er að dómari rekur að þegar brotið átti sér stað hafi ákærði verið á skilorði, en hann var í júní 2021 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi sem var skilorðsbundið til þriggja ára. Brotið þá varðaði líkamsárás og brot gegn valdstjórninni. Aftur var honum svo dæmdur hegningarauki í júní 2022 fyrir fíkniefnabrot og umferðarlagabrot og þá var skilorðsbundin refsing fyrri dóms tekin  upp og refsing dæmd í einu lagi. Niðurstaðan þá var fangelsi í sex mánuði sem var skilorðsbundið í tvö ár. Þar með hafið hann þegar rofið skilorð, en engu að síður fengið skilorð áfram. Ekki nóg með það heldur hafði fyrsta skilorðið hljóðað upp á þrjú ár, og það seinna sem kom ári síðar upp á tvö ár. Þar með endaði hann ekki á skilorði lengur en upprunalega var dæmt, þrátt fyrir skilorðsrof.

Að þessu sinni hafði hann rofið seinna skilorðið. Dómari rakti að brotin í máli þessu áttu sér stað áður en hann var í fyrra skiptið dæmdur fyrir að rjúfa skilorð. Eins sé hann nú aftur dæmdur fyrir líkamsárás og aftur búinn að rjúfa skilorð.

Dómari rakti að af frásögn brotaþola, ákærða og vitna megi ráða að samskipti ákærða við mæðgurnar hafi farið úr böndunum og ljóst að ákærði hafi af þeim sökum verið í „skammvinnu ójafnvægi“. Eins hafi tafir orðið á meðferð máls fyrir útgáfu ákærðu og það horfi til mildunar. Þar með taldi dómari rétt að dæma skilorðsbundna refsingu. Þrátt fyrir að ljóst væri hversu mikið tillit til skilyrða skilorðs ákærði greinilega tekur, og vekur málið upp spurningar um

Ákærði var dæmdur í níu mánaða fangelsi en refsingin skilorðsbundin til tveggja ára.

Hann þarf eins að greiða dótturinni 150 þúsund krónur í bætur og 200 þúsund í málskostnað. Móðurinni þarf hann að greiða 250 þúsund krónur og 200 þúsund í málskostnað.  Mest græðir þó verjandi ákærða sem fær rétt tæpa 1,1 milljón. Ákærði þarf eins að greiða verjanda sem kom að málinu á rannsóknarstigi tæpar 100 þúsund krónur og svo um 118 þúsund í annan sakarkostnað.

Eldgamalt skilorð

Eins og greint er frá hér að ofan vekur beiting dómara á heimild til að fresta refsingu skilorðsbundið upp áleitnar spurningar. Almenn hegningarlög voru lögfest árið 1940 og kaflinn um skilorðsbundna refsingu kom inn í lögin árið 1955 og hafa ákvæðin ekki verið uppfærð svo nokkru skipti í gegnum árin. Til að byrja með var skilorði beitt af varfærni hér á landi en með tíð og tíma þótti reynslan góð og skilorði því sífellt beitt í ríkari mæli. Árið 2011 velti nemandi við Háskólann á Akureyri því fyrir sér í lokaverkefni sínu hvort að skilorði væri þá beitt í of miklum mæli með tilliti til ítrekaðra skilorðsrofa. Taldi höfundur að þó ekki yrði efast um hæfi dómara til að meta hvort skilorð eigi við þá mætti skoða hvort tilefni væri til að lögfesta ákvæði um hversu oft einstaklingur getur fengið refsingu sína skilorðsbundna og eins að taka til skoðunar hvort að lögfesta þurfi frekari skilyrði fyrir skilorði.

Þegar núgildandi kafli um skilorð var lögfestur árið 1955 sagði í greinargerð frumvarps að skilorð væri til að gefa aðila tiltekinn frest til að sýna að hann hafi breytt um stefnu og „betrað framferði sitt“. Stundum þurfi ríkisvaldið að veita aðstoð svo þetta megi verða að raunveruleika. „Ef aðili gerist ekki sekur um ný brot á fresttímanum og heldur að öðru leyti skilorð, sem honum kunna að vera sett, sleppur hann við refsingu, en vitund um, að hann kunni að sæta refsingu, ef hann heldur ekki skilyrðin, á að vera honum hvatning til að taka upp breytta og betri lifnaðarhætti.“

Sagði í frumvarpinu að eðlilegt væri að sakborningar fengju aðstoð og aðhald á þessum skilorðstíma, eins var kveðið á um að dómari gæti ákveðið að skilorðsrof verði ekki til þess að skilorð falli niður, til dæmis ef viðkomandi gerist sekur um smávægleg brot sem varða sektum, eða annað sem teljast má lítilvægt, brot afsakanlegt, og ef ekki eru merki um að áframhaldandi skilorð sé hreinlega gagnslaust.

Eftir stendur spurningin hvort að skilorð hafi þann fælingarmátt sem því var ætlað, og hvort aðhald með skúrkum á skilorði sé nægilegt eða hvort þeir séu að fá þann stuðning til að snúa blaðinu við, líkt og löggjafinn vonaði á sínum tíma. Af orðum frumvarpsins má þó velta því fram hvort árásin í málinu sem reifað er  hér að ofan sé afsakanlegt eða lítilvægt.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“
Fréttir
Í gær

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Í gær

Var með mikið magn af OxyContin innvortis

Var með mikið magn af OxyContin innvortis
Fréttir
Í gær

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum