Helgi segir frá þessu í samtali við Morgunblaðið í dag en hann skrifaði athyglisverða grein sem birtist á sama vettvangi í síðustu viku þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um málið.
„Árið 1963 hvarf í Vestmannaeyjum 26 ára gamall Ungverji, Imre Bácsi,“ sagði Helgi meðal annars í grein sinni en Imre hafði þá dvalið í Eyjum í sjö ár og lengst af unnið í Vinnslustöðinni. Hann var í hópi 52 flóttamanna sem komu frá Ungverjalandi til Íslands undir árslok 1956 en um tíu manns fóru til Vestmannaeyja.
Helgi gat rakið afdrif allra þessara Ungverja sem til Eyja komu, nema Imre sem virðist hafa horfið sporlaust. Vakti Helgi athygli á því að enginn virðist hafa tilkynnt lögreglunni um hvarf hans eða grennslast nánar fyrir um hvað varð af honum.
Benti hann á að nafn Imre og heimilisfang hafi verið í íbúaskrá árið 1963 en hann verið strikaður út af henni árið 1965, án athugasemda.
Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Helgi að margir hafi sett sig í samband við hann eftir að greinin birtist í síðustu viku. „Það eru auðvitað margir sem muna eftir honum og kannast við hann,“ segir hann en engar upplýsingar hefur hann fengið sem varpað geta ljósi á málið.
Helgi kveðst þó enn vonast til þess að fá upplýsingar um málið.