„Allt gildismat þitt umturnast. Bara núna í morgun tók ég eftir því hvað ég var glaður að geta sett í þvottavélina. Finna til fötin og hlusta á útvarpið á meðan yngri sonur minn tók sig til í skólann. Þetta eru algjörar gullstundir, allt sem okkur fannst kannski svo eðlilegt áður að við tókum ekki eftir því.
Að hafa ekki heilsu til að fara út í daginn setur allt í nýtt samhengi. Fyrir mér er hver dagur dásamlegur. Að mæta í vinnuna, fá mér að borða og fara svo saman á körfuboltaleik. Í morgun kom tilkynning í símann hjá mér um að veitt hefði verið heimild á kortið um ákveðna upphæð – mánaðarlegi stuðningurinn minn sem Velunnari Krabbameinsfélagsins. Og ég brosti því mér finnst það svo frábært og yndislegt að geta stutt við þetta mikilvæga starf,“
segir Þórarinn Thorarensen í viðtali á vef Krabbameinsfélagsins.
Viku eftir fimmtugsafmælið sitt árið 2022 fór Þórarinn í ristilspeglun sem leiddi í ljós krabbamein.
„Ég hafði fundið fyrir því að ég var óvenju mæðinn en hélt bara að ég væri með flensu eða eitthvað slappur. Svo var ég að hjóla upp brekku á Hólmsheiði, ekkert erfiða þannig séð, en púlsmælirinn á úrinu sýndi nálægt 180. Það var óvenjulegt. Ég var reyndar líka búinn að vera eitthvað skrýtinn í maganum svo ég panta tíma í ristilspeglun og fer í hana viku eftir að ég held upp á fimmtugsafmælið mitt í september 2022. Þetta kom eiginlega strax í ljós. Ég man mjög vel þegar læknirinn sagði: „Já, hérna er eitthvað,“ en svo vildi hann ekki segja meira. Ég spurði hann samt hverjar líkurnar væru á því að þetta væri ekki krabbamein og hann svaraði einfaldlega að þær væru engar,“ rifjar Þórarinn upp.
Sýnataka úr spegluninni leiddi svo í ljós illkynja æxli á þriðja stigi í ristlinum nálægt endaþarminum. Í kjölfarið fylgdu myndatökur, blóðprufur, fundur með skurðlæknateymi og fleira. Þórarinn hafði bróður sinn með á alla læknafundi og lýsir því hvernig hann fékk erfiðar upplýsingar í nokkrum skömmtum.
Þórarinn segir það að greinast með krabbamein vera áfall sem er viðvarandi en misjafnlega erfitt eftir dögum.
„Maður er alltaf með þetta bak við eyrað. Alla morgna, þetta krabbamein. Auðvitað ferðu að hugsa um framtíðina, börnin þín og allt þegar þetta gerist. Krabbameinsfélagið greip mig svo, algjörlega.“
Þórarinn lauk strangri lyfjameðferð í febrúar 2023 og er enn að fást við eftirköst hennar með doða í höndum og fótum og eymsli í vöðvum. Í kjölfarið þurfti Þórarinn í stóra aðgerð þar sem það myndaðist sár í ristlinum með þeim afleiðingum að hann stíflaðist.
Uppbygging eftir svo stóra skurðaðgerð tekur langan tíma og var ekki áfallalaus í tilfelli Þórarins. Í aðgerðinni særðist þvagrásin svo að framundan var erfitt bataferli sem meðal annars fól í sér að hann þurfti að vera með þvaglegg í hálft ár. En í aðgerðinni voru líka tekin sýni sem leiddu í ljós að krabbameinið var horfið.
„Að vera laus við meinið er auðvitað rosalegur sigur. En ég er ennþá, ári síðar, að byggja líkamann upp og fæst við líkamleg einkenni eins og doða, eymsli og fleira auk þess sem bataferlið eftir aðgerðina var langt og strangt. Ég á alveg misjafna daga og það er kannski ekki síst hausinn á manni sem þarf að vinna með, að hafa fókusinn réttan og halda áfram.
Ég held að ég sé áreiðanlega kominn með þrjár doktorsgráður í þolinmæði. En að vera laus við krabbameinið er auðvitað geggjuð og yndisleg tilfinning og ég man eftir þessari tilfinningu fyrir páskana í fyrra að bíða eftir niðurstöðunum úr sýnum og fá svo símtalið um að sýnin séu hrein og allar myndir 100%. Ég fer bara að gráta við að rifja þetta upp.“
Viðtalið við Þórarinn má lesa í heild sinni hér og hægt er að gerast Velunnari Krabbameinsfélagsins hér.
Velunnarar, mánaðarlegir styrktaraðilar Krabbameinsfélagsins, eru stærsta stoðin í starfsemi þess og gegna því algjöru lykilhlutverki við að halda starfsemi félagsins sem öflugustu í þágu þeirra sem þurfa á þjónustu þess að halda.