Í hlaðvarpsútgáfu af Íþróttavikunni var því velt upp hvern Age Hareide landsliðsþjálfari myndi hafa sem fremsta mann í leiknum sem framundan er gegn Úkraínu.
Ísland mætir Úkraínu á þriðjudag í hreinum úrslitaleik um sæti á EM næsta sumar. Orri Steinn Óskarsson byrjaði sem fremsti maður í undanúrslitunum gegn Ísrael en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn. Andri Lucas Guðjohnsen kom inn af bekknum.
„Ég held að Orri hafi því miður ekki gert nægilega mikið til að réttlæta það að hann byrji næsta leik. Hann er geggjaður hvað karakterinn og þess háttar varðar en það verður að koma aðeins meira út úr honum en í þessum leik. Hann var ekki mikil ógn,“ sagði Helgi Fannar Sigurðsson.
„Leikstíllinn hans og hans fótbolti, er hann þessi proper nía? Við erum með Albert í að droppa niður og sjá sendingar. Með FCK finnst manni það vera hans styrkleiki,“ sagði Hörður Snævar Jónsson.
„Hann er ungur að árum og getur örugglega bætt þetta en þetta er örugglega eitthvað sem Hareide pælir í. Andri Lucas kemur inn eftir klukkutíma í gær og Alfreð Finnbogason er ónotaður varamaður. Þessir tveir eru væntanlega mennirnir sem Hareide er að pæla í.“