„Það var svo sveitalegt hvernig var staðið að þessu. Þetta bar ekkert þess merki að þetta væri einhver UEFA-leikur. Mix-zoneið var svona þrír fermetrar,“ sagði Helgi Fannar Sigurðsson í hlaðvarpi Íþróttavikunnar eftir leik Íslands gegn Ísrael í Búdapest.
Liðin mættust á Szusza Ferenc leikvanginum í Búdaest vegna stríðsástandsins á Gasa en eins og flestir vita vann Ísland 4-1 sigur. Liðið er komið í úrslitaleik um sæti á EM í sumar en þar verður andstæðingurinn Úkraína.
Helgi var á staðnum í Búdapest og sagði sem fyrr segir að illa hafi verið staðið að ýmsu í kringum leikinn.
„Það var mikið af lögreglumönnum þarna en gæslan var nú ekki meiri en það að Bjarki Már (Elísson, landsliðsmaður í handbolta sem var á leiknum) og félagar gátu valsað í gegnum Mix-zoneið rétt áður en viðtöl hófust,“ sagði Helgi léttur í bragði.
„Þessi völlur lítur vel út í sjónvarpinu en hann er að hruni kominn þar í kring. Þeir lappa bara upp á það sem sést í sjónvarpinu.“