„Ég var búinn að venjast við varfærið orðalag en síðan þegar ég heyrði orðið krabbamein, þegar læknirinn sagði þú ert með krabbamein, ég gat ekki hamið mig, ég fór að gráta og beygði af. Það var eins og allir sjúkdómar heltust yfir mig í einu lagi og það var ansi þungt og erfitt. Svo andaði ég djúpt og gerði mér grein fyrir því að ég var þó í mjög góðri stöðu miðað við marga aðra,“
segir Anton Helgi Jónsson skáld sem greindist með krabbamein 68 ára gamall.
„Læknar héldu að ég væri bara með mjög slæmt kvef og mjög slæma hálsbólgu,“ segir Anton Helgi, sem segist hafa legið heima mjög veikur þar til honum var skutlað aftur á heilsugæsluna og þaðan beint á bráðadeild.
„En í þeirri vendu fannst krabbamein í vinstra lunganu á mér og nokkrum mánuðum seinna var ég skorinn upp.“ Aðgerðin heppnaðist vel og fór Anton Helgi síðan í lyfjameðferð.
,,Mér datt í hug einn daginn að horfa á listaverkin sem ég rekst á á göngunum og hingað og þangað um sjúkrahúsið og reyni að túlka þau á minn hátt í mínum veikindum. Fyrir mig að fara og dvelja á sjúkrahúsinu var eins og að fara á listasafn. Þetta var ekki kalt og dapurlegt og leiðinlegt sjúkrahús, það var eitthvað annað og meira og gefandi,“ segir Anton Helgi.
,,Ég veit að margir gera eitthvað svona, á einn eða annan hátt, til að komast af!“