Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
Jóhann Berg Guðmundsson tók þátt í upphitun á æfingu íslenska landsliðsins sem nú stendur yfir hér í Búdapest. Guðlaugur Victor Pálsson tók hins vegar ekki þátt.
Íslenska liðið undirbýr sig fyrir leik gegn Úkraínu á þriðjudag. Um er að ræða hreinan úrslitaleik um sæti á EM í sumar.
Jóhann Berg var ekki með í undanúrslitaleiknum gegn Ísrael vegna meiðsla og verður að efast um þátttöku hans á þriðjudag. Hann var þó með í upphitun sem fyrr segir.
Guðlaugur Victor var á svæðinu en tók ekki þátt í upphitun.
Þá var Arnór Sigurðsson fjarverandi einnig en ljóst er að hann nær ekki leiknum gegn Úkraínu vegna meiðsla.
Nafni hans, Arnór Ingvi Traustason, tók þátt í upphitun í dag en ekki er vitað með þátttöku hans á þriðjudag eftir að hann fór af velli vegna meiðsla gegn Ísrael.