Leigjandi sem gert hafði tímabundinn leigusamning frá 1. febrúar 2023 til 31. desember 2025 hafnaði kröfu leigusalans um að halda eftir tryggingafé að fjárhæð 40.000 krónur og leitaði til Kærunefndar húsamála vegna ágreiningsins. Tryggingaféð sem leigjandinn hafði lagt fram í upphafi var 179.000 krónur og hafði hann fengið féð endurgreitt fyrir utan 40.000 krónur.
Tryggingaféð vildi leigusalinn nýta til að greiða kostnað vegna eitrunar meindýraeyðis vegna veggjalúsar.
Leigjandinn bar því við að þegar hann hefði flutt inn í febrúar 2023 hafi veggjalúsin verið í dvala en hún byrjað að gera vart við sig þegar það hafi byrjað að hlýna og hún þá verið um allt svefnherbergið.
Leigusalinn hafi látið meindýraeyði eitra í svefnherberginu á meðan leigjandi hafi verið í vinnu og enn búið í íbúðinni. Aðilar hafi gert tveggja ára leigusamning en leigjandi sagði að búseta í íbúðinni hafi verið ómöguleg vegna veggjalúsa og leigusali sýnt athafnaleysi við að uppræta vandann.
Leigusalinn hafnaði þessu alfarið og sagðist aldrei áður hafa orðið var við veggjalús í íbúðinni. Það sé rangt hjá leigjandi að þær hafi legið í dvala þar sem þær séu virkar allan ársins hring. Nýjar dýnur hafi verið í íbúðinni við upphaf leigutíma en þær verið ónýtar eftir aðeins nokkra mánuði. Fenginn hafi verið meindýraeyðir til að eitra í íbúðinni. Samtals hafi það kostað leigusala um 200.000 kr. og það sé sanngjarnt að leigjandinn taki þátt í kostnaðinum. Sagði leigusali alveg ljóst að veggjalúsin hafi komið með leigjandanum inn í íbúðina þar sem hann hafi fyrst tekið eftir henni í júní 2023.
Kærunefnd tók því miður ekki til úrskurðar hvort veggjalúsin hefði fylgt leigjandanum í leiguíbúðina eða ekki, og því mögulega verið í ókeypis húsnæði, báðum aðilum til ama. Því kærunefndin gat úrskurðað á mun leiðinlegri forsendum, nefnilega þeim að leigusalinn hefði hvorki vísað ágreiningnum um tryggingaféð til kærunefndar né dómstóla innan fjögurra vikna eins og húsaleigulög kveða á um.
Sökum þess úrskurðaði kærunefndin að leigusalanum bæri að endurgreiða leigjandanum 40.000 krónurnar ásamt vöxtum.